05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingar hans. Ekki hef ég neina andúð á þessu máli og ég minnist vel orða hæstv. ráðh. frá 1. umr., að lítill eða enginn rekstrarhalli hafi orðið á ferðaskrifstofu ríkisins s. l. ár. En ég vil benda á 2. gr. frv., um stimpilgjaldið. Er ekki ráðlegra að halda því gjaldi? Það er mikil þörf á að styðja gistiskála. Nú óskar vegamálastjóri t. d. eftir 300 þús. krónum til að bæta húsakynnin í Fornahvammi, sem er að vísu í eigu ríkisins, en þessi kostnaður er vegna ferðamannastraumsins, vegna hans telur vegamálastjóri óhjákvæmilegt að bæta húsakynnin í Fornahvammi. Mér er kunnugt um, að lögð var sú þunga skylda á systurnar á Kinnarstöðum að taka á móti gestum, allt þar til Barðstrendingafélagið tók við, og nú sækir það mjög fast að fá styrk til skála síns. Hæstv. samgmrh. leyfði, að varið væri 25 þús. krónum til þessarar byggingar. Reksturinn ber sig sæmilega, en byggingarkostnaður var mikill. Þá verður annar skáli að koma á Brjánslæk, ef samgöngur opnast þangað. Á Hólsfjöllum hvílir allur ferðamannastraumurinn á bóndanum, sama er að segja um Egilsstaði og fleiri staði. En það er aðkallandi mál að létta þessum kvöðum af heimilum og reisa sjálfstæða gistiskála fyrir ferðafólk.

Ég tel því æskilegt, að 5% gjaldinu verði haldið enn í nokkurn tíma og því varið m. a. til slíkra skála, því að með því móti er því varið til að bæta skilyrði ferðafólks í landinu. Hins vegar er ég alveg sammála þessu frv.