05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við tilmælum hv. þm. Barð. og taka til athugunar að halda stimpilgjaldinu. Ekki skal dregið í efa, að þeir sem eiga gistihús eða stór heimili í ferðamannaleið þarfnist styrks frá ríkinu. En ég vil vekja athygli á því, að stimpilgjaldið er einnig greitt af farseðlum þeirra farþega, sem ferðast með áætlunarbifreiðum, alveg á sama hátt og sérleyfisgjaldið, og það er því nokkuð langt gengið að leggja bæði þessi gjöld á það fólk eingöngu, sem ferðast með áætlunarbifreiðum. Og eigi þess utan að leggja fram styrk frá hinu opinbera til byggingar gistihúsa, Þá nýtur þetta fólk að vísu gistihúsanna að miklu leyti, en þau verða einnig mikið notuð af fólki, sem ferðast um í einkafólksbifreiðum, og með tilliti til þess er það vafasöm sanngirni að láta eingöngu það fólk, sem ferðast með áætlunarbifreiðum, greiða gjaldið,, sem rennur til byggingar þessara gistihúsa. Þetta vildi ég aðeins taka fram og lofa, að málið verði athugað nánar í allshn. fyrir 3. umr.