11.03.1947
Efri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

191. mál, einkasala á tóbaki

Brynjólfur Bjarnason:

Hæstv. fjmrh. hefur nú staðfest, að það er allt á huldu, hvaða stefna verði tekin upp, enda vitum við það allir. Hitt getum við verið sammála um, að ríkissjóð vanti fé. En hins vegar getur verið ágreiningur um það, hvernig skuli fara að því að afla þess fjár, engu síður en um það, hvernig því skuli varið. Og ég álít það séu til ýmsar aðrar leiðir, sem ef til vill liggi nær að grípa til en þessarar. Ég hef bent á þá annmarka, sem á þessu eru, og þótt hér sé um að ræða svo gallaða munaðarvöru, þá er þetta munaðarvara, sem er almenn neyzluvara og hefur áhrif á vísitöluna. Og það hefur ekki verið upplýst hér, hvað þau áhrif verða mikil. Það þarf annars ekki að hafa um þetta fleiri orð. Úr því verður skorið við atkvgr., hvort málinu verði vísað til n. eða ekki.