18.03.1947
Efri deild: 96. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

111. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Út af aths. dómsmrh. við 3. umr. var afgreiðslu málsins frestað, svo að n. gæti sent það heimspekideild háskólans til umsagnar með þeim aths., sem dómsmrh. gerði. Nú hefur n. borizt eftirfarandi bréf, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Út af bréfi hv. menntmn. Ed. 26. f. m. tilkynnist yður, að heimspekideildin hefur tekið málið til athugunar og samþykkt um það svo fellda umsögn:

Heimspekideildin er þeirrar skoðunar, að óþarft sé að skipa prófdómendur til að dæma úrlausnir við meistarapróf í íslenzkum fræðum, og getur eigi fallizt á, að „óviðurkvæmilegt“ sé að halda hinu gamla fyrirkomulagi. Má benda á, að við Kaupmannahafnarháskóla er sami háttur á hafður um meistarapróf, og við sænska háskóla eru engir prófdómendur við tentamen. Hins vegar lætur deildin það afskiptalaust, þótt þessu yrði breytt (smbr. 26. gr. háskólalaganna), en telur sér skylt að benda á, að dómstörf við þetta próf hljóta að verða óvenjulega kostnaðarsöm.

Virðingarfyllst.

Einar Ól. Sveinsson,

forseti heimspekideildar“

Þessar upplýsingar, sem hér koma fram skriflega, lágu áður fyrir d. munnlega, og tel ég því eðlilegt, að gengið verði nú þegar til atkv. um frv.