13.11.1946
Neðri deild: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

67. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Stefán Jóhann Stefánsson) :

Herra forseti. Í 54. gr. núverandi stjskr. er kveðið svo að orði, að alþm. sé heimilt að bera upp sérhvert almennt mál í þeirri þd., sem hann á sæti í, ef hún leyfir það, og beiðast um það skýrslu ráðherra. Í samræmi við þessa gr. stjskr. er svo ákveðið í 31. gr. þingskapa, að ef menn vilji gera slíkar fyrirspurnir, þá sé skylt að prenta þær og útbýta þeim og því næst bera undir hlutaðeigandi þd., hvort þær skuli leyfðar. Þegar þd. er búin að leyfa fsp., á að senda hana til hlutaðeigandi ráðh., og þegar hann er tilbúinn að svara, skal málið tekið á dagskrá.

Ég vil fyrst og fremst benda á það, að þetta atriði er eins og fleiri atriði í okkar stjórnarskrá að verulegu leyti þýðing á grundvallarlögum Dana, en eins og menn vita, þá er danska þingið þannig, að þótt það sé í tveimur d., þá er þar ekki sameinað þing. Mörg ákvæði í okkar stjórnarskrá eru vegna tilkomu sinnar miðuð við það, að þingið sé aðeins í tveimur d., en ekki Sþ. Þessu er nú að því leyti breytt, að sameinað Alþingi fékk mál að fjalla um, þegar svo var ákveðið 1933, að fjárl. skyldu rædd í Sþ.

Eftir heimild 54. gr. stjskr. er þar svo ákveðið og eins í 31. gr. þingskapa, að fsp. með þeim hætti, sem þar er ákveðið, skyldi bera fram í d. á þann hátt, sem ég hef lýst. Reynslan á þessu fyrirkomulagi var heldur slæm, og það hefur sýnt sig, að hér er þörf verulegra umbóta. Menn bera fram fsp. sínar í samræmi við stjskr. og þingsköp. Þær eru prentaðar, þeim er útbýtt, lagt undir samþykki d., hvort þær skuli leyfa, það er samþ., undantekningarlaust, og síðan eru þær sendar ráðh. Svo kunna að líða vikur, mánuðir og jafnvel þingtíminn út, að aldrei berist svar við fsp. Vegna þessa þunglamalega fyrirkomulags hafa þm. gripið til þess ráðs að kveðja sér hljóðs utan dagskrár í þd. eða. Sþ. og bera fram þar fsp. til ráðh. Aftur gæta þm. þess ekki, sem slíkar fsp. bera fram, að óska eftir því við viðkomandi ráðh., að hann væri viðstaddur í þd. eða Sþ. til að hlusta á mál þm. þar og svara fsp. Af því leiðir það, að stundum er beint fsp. til ráðh., sem ekki er viðstaddur, og jafnvel þó að hann sé viðstaddur, þá á hann þess ekki kost að gefa þá svo skýr og ákveðin svör sem fyrirspyrjandi ætlast til, þar sem hann veit ekki um fsp., fyrr en hún kemur fram. Til þess að bæta úr þessu og til þess að fullnægja þeim vilja, sem greinilega er fyrir hendi hjá alþm., að geta borið fram fsp. til ráðh., og þeir eigi þess kost að fá við þeim hið bráðasta skýr svör, þá leyfi ég mér að bera fram frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 97. Þar er gert ráð fyrir, að hver og einn þm. geti borið fram slíkar fsp. og afhent þær forseta, forseti komi þeim til skrifstofu Alþingis og innan viku frá því, að fyrsta fsp. kom fram, skuli prenta fsplista um eina eða fleiri spurningar, sem borizt hafa forseta frá því, að fyrsta fsp. kom fram, og þeim lista sé síðan útbýtt meðal alþm. Viku eftir útbýtingu listans á að taka málið á dagskrá í Sþ. sem sérstakan dagskrárlið, og gefist þá hlutaðeigandi ráðh. kostur á að svara fsp. og gefa skýrslu þá, sem beiðzt er, í sem stytztu máli, og eftir mínum till. er gert ráð fyrir því, að þm. geti tekið til máls um fsp., þó ekki lengur en 5 mínútur í senn og ekki oftar en tvisvar sinnum aðrir en ráðh.

Ég skal fyrst og fremst geta þess, að ég álít eðlilegt, að fsp. séu bornar fram í Sþ. Þar eru allir þm. saman komnir, og þar geta ráðh. setið án tillits til, hvar þeir eiga sess sem þm. Þar er allur þingheimur saman kominn og allir ráðh. Það er því eðlilegast, að fsp. séu ræddar í Sþ. Það er að vísu ekki gert ráð fyrir því í stjskr., að fsp. séu bornar fram í Sþ., en þar er ekki heldur gert ráð fyrir því, að þáltill. séu bornar fram í Sþ., en í stjskr. er heimilað samkv. 58. gr., að það séu settar nánari reglur um þingstörfin með þingsköpum. Og það hefur verið gert með þingsköpum að heimila þáltill. í Sþ., þó að stjskr. tali ekki um það, og það er margra ára venja um þetta atriði, og mér skilst, að það hljóti að vera heimilt á sama hátt, þegar um hliðstætt tilfelli er að ræða, að ákveða með þingsköpum, að fsp. geti verið bornar fram í Sþ. Ég tel því, að í stjskr. sé ekkert það, sem meini það, að þessar fsp. séu bornar fram með þeim hætti, sem ég legg til, að það sé ákveðið, að þær séu bornar fram í Sþ., en að sjálfsögðu er ekki hægt með þingsköpum að breyta ákvæðum stjskr. Þar af leiðandi er talað um það í niðurlagi frv., að rétt sé þm. einnig að nota sér heimild 54. gr. stjskr. að beiðast skýrslu ráðh. í þd., en um ákvæði þeirrar gr. gat ég í upphafi máls míns. Ég ætla þó, að þessi heimild, sem ég vil hér lögfesta, yrði aðallega notuð, en ekki heimild 54. gr. stjskr.

Ég hef drepið á það í grg., að þessi háttur eða líkur þeim, sem ráðgerður er í frv. mínu, hafi lengi verið við hafður í móðurlandi þingræðisins, Stóra-Bretlandi. Allir, sem hafa átt kost á að hlusta á brezka parlamentið eða lesa um það, vita, hvað þetta er stórmerkilegur þáttur í starfi brezka þingsins. Ég hlustaði einu sinni á brezka þingið í fyrirspurnatíma. Þá voru um 60 fsp. afgr. þar á rúmum klukkutíma.Ráðh. leitaðist við að svara þeim í sem stytztu máli, stundum með einni eða tveimur setningum. Þm., sem kvöddu sér hljóðs, töluðu aðeins stutta stund. Og eftirtektarvert var, hvað mikið bar á því, sem er svo áberandi þáttur hjá Bretum, að menn tækju þessar umr. með kímnilegum ummælum. Þessi háttur hefur reynzt ágæta vel, og aðrar þjóðir hafa um það rætt og sumar einnig látið verða af því að taka upp líka háttu.

Mér sýnist auðsætt, að íslenzkir alþm. hafi fullan vilja á því að nota sér þann rétt, sem finnst í stjskr. og þingsköpum, til að bera fram fsp. á Alþ. En ef á að fylgja fyrirmælum 31. gr. þingskapanna, þá verður reyndin sú, eins og ég hef áður sagt, að málsmeðferðin verður silaleg og nær ekki því marki, sem til er ætlazt. En ef þessi háttur, sem ég legg til, er tekinn upp, að koma þannig með skrifl. fsp., þá gæti það orðið til þess, að mörg mál og stjórnarathafnir yrðu upplýst betur en ella. Ráðh. mundu svara fsp. í sem stytztu máli, og þm. gætu lagt eitthvað orð í belg til frekari fsp. eða til að hýsa áliti sínu á því, sem fram kom í svari ráðh. Ég tel, að þetta geti orðið til að greiða fyrir góðum störfum þingsins. Ég tel því eðlilegt, að þessi tilraun sé a. m. k. gerð.

Ég tel að athuguðu máli, að það sé engum vafa bundið, að það sé heimilt samkv. stjskr. að ákveða um þetta atriði á þennan veg, að sjálfsögðu með því að skerða í engu þann rétt, sem þm. eiga eftir 54. gr. stjskr. til þess að bera fram fsp. á sama hátt og tíðkazt hefur í d. En það er trú mín og skoðun, að sá þáttur þingstarfanna mundi breytast og menn hverfa að því að bera fsp. fram í Sþ., og ef þetta er vel framkvæmt, þá álít ég, að það gæti orðið til þess, að þingstörfin að þessu leyti gengju betur og þm. fengju meiri og betri upplýsingar og greiðari en þeir hafa áður fengið.

Ég hef þessi orð svo ekki fleiri, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.