05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

67. mál, þingsköp Alþingis

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. frsm. allshn., að það kemur sennilega ekki að fullu gagni að setja ákvæði í l. um þetta fyrirkomulag fsp., sem hér er til umr., nema hraðað verði prentun þeirra og umr. um þær. Hins vegar vil ég í þessu sambandi vekja athygli á því, að hið sama má segja um prentun Alþingistíðinda í heild, að ef menn telja, að á annað borð eigi að prenta þau, verður að játa það, að gagnsemi þeirra hlýtur að verða mjög hverfandi, ef prentunin gengur eins seint og verið hefur undanfarið. Það var til dæmis borið heim til mín nú eftir áramótin eitt hefti af Alþingistíðindum frá árinu 1942, þ. e. a. s. 5 árum eftir að umr. fóru fram. Hljóta allir að sjá, að slík prentun er að mestu leyti gagnslaus. Hún er ekki öðrum til gagns en ef til vill einum eða tveimur mönnum, sem af fræðilegum ástæðum kunna að hafa ástæðu til þess að rekast í þessum málum, og fæ ég ekki séð, að það sé hyggilegt að verja fé ríkisins til slíkra ráðstafana. Það er hins vegar sjálfsagt að mínu viti að prenta Alþingistíðindin, ef þau gætu komizt út til almennings og þm. innan hæfilegs tíma, eftir að umr. hafa farið fram. — Ég vildi því beina því til hæstv. forseta þessarar d., að hann beitti valdi sínu til þess að ýta á eftir prentun Alþingistíðinda, og ef það er ekki hægt innan hæfilegs tíma, að hann tæki það, þá til rækilegrar íhugunar, hvort ekki væri réttara að fella niður prentunina í núverandi formi og gefa út stuttan útdrátt jafnóðum úr umr. Í öðrum löndum, a. m. k. í Englandi, er þessum málum þannig farið, að þingumr. eru gefnar út og sendar út um allt land, örfáum dögum eftir að þær hafa farið fram, og má fá þær keyptar í bókabúðum, sem ríkisstj. vísar á í því skyni. Þannig getur þetta orðið að verulegu gagni og til fróðleiks fyrir almenning og stuðnings fyrir þm. í störfum þeirra, en með því fyrirkomulagi, sem hér ríkir í þessum málum, verður þetta einungis til kostnaðar fyrir hið opinbera.

Þá vildi ég vekja athygli á því út af því frv., sem hér liggur fyrir, að því verður ekki á móti mælt, að frv. heggur allnærri 54. gr. stjskr., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er hverjum alþingismanni að bera upp sérhvert almennt mál í þeirri þd., sem hann á sæti í, ef hún leyfir það, og beiðast um það skýrslu ráðherra.“

Þessi gr. var upphaflega skilin þannig og þingsköp síðan sett í samræmi víð hana á þann veg, að fsp. mætti eingöngu bera upp í d., en ekki í Sþ. Nú er að vísu hægt að benda á mörg fyrirmæli þingskapa, sem ganga í svipaða átt, og vil ég þar aðeins benda á 38. gr. stjskr.: „Hvor deild hefur rétt til að bera fram og samþykkja fyrir sitt leyti frv. til l. og annarra samþykkta.“ Er enginn vafi á því, að þarna er átt við þál., en venjan hefur síðan leitt til þess, að langflestar þeirra eru nú orðið bornar fram í Sþ. — Með hliðsjón af þessum gr. og fleirum hygg ég, að sú venja hafi skapazt vegna mjög breyttra staðhátta, frá því að Alþ. var fyrst skipt í deildir árið 1874, að það verði ekki talið varlegt að hleypa þessu frv. fram án gaumgæfilegrar athugunar. Ég mundi því óska eftir úrskurði hæstv. forseta um það, hvort hann teldi, að frv. samrýmdist stjskr. Ég vil enn á ný benda honum á það, að þetta snertir svo mjög 54. gr. stjskr., að ég hygg nauðsynlegt, að hann geri sér og þd. grein fyrir því, hvort þetta mál, er hér um ræðir, fái staðizt með öllu. — Í þessu sambandi vil ég og benda á 39. gr. stjskr., en þar segir svo : „Hvor þingdeild getur skipað nefndir innandeildarþingmönnum til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða.“ Hefur þessi gr. verið skilin á þann veg, að slíkar n. mætti ekki skipa í Sþ., og er til forsetaúrskurður um þetta. Teldi ég þann úrskurð ekki geta staðizt frá því sjónarmiði, sem ég drap á áðan, um almenn störf þingsins og breytingar, sem á þeim hafa orðið. Þessi úrskurður hefur þó verið felldur samkv. 39. gr., en ef menn vilja skilja 54. gr. á sama veg eins og úrskurð forseta, sem ég minntist á, þá fær þetta frv. ekki staðizt, og verður forseti að vísa því frá. Ég vil svo vekja athygli hæstv. forseta á því, að hér er um að ræða atriði, sem heyrir undir hans valdsvið að segja til um, og treysti ég honum fullkomlega til. að fella þar um réttan úrskurð. Hitt vildi ég enn fremur benda á, að þótt það að vísu fái staðizt samkvæmt venju, að fsp. megi flytja þannig í Sþ., þá er það þó hæpið, að það fái staðizt eftir stjskr., að lögð sé bein skylda á ráðh. að svara fsp. Það er enginn vafi á því, að 54. gr. stjskr. er það ákvæðið, sem fjallar um fsp., og þingsköpum er raunverulega óheimilt að leggja þyngri skyldur á stjórnaryfirvöldin umfram það, sem segir í stjskr., að ég nú ekki tali um, ef það kæmi í bága við hana. Það er ekki nokkur vafi á því, að 54. gr. stjskr. er aðalákvæðið um fyrirspurnarréttinn. Þetta álít ég vera markalínuna, og þess vegna verða fyrirmæli þingskapanna varðandi fsp. að laga sig eftir þessu ákvæði. Það er óheimilt að setja sjálfstæð ákvæði um fsp. í þingsköp án þess að taka tillit til 54. gr., meðan það ákvæði helzt um fyrirspurnarréttinn, sem þar greinir. Hins vegar tel ég, að þrátt fyrir það að orðalag 54. gr. gefi til kynna, að fsp. megi aðeins bera upp í d., þá fái það staðizt að flytja fsp. inn í Sþ. vegna þeirrar venju, sem komin er á. Hitt er svo annað mál, hvort það fái staðizt að skylda ráðh. til að svara fsp., sem þm. beina til hans, og er spurning um það, hvort í 54. gr. felist bein skylda ráðh. til að svara, eins og n. tekur fram. Mér þykir það að vísu sennilegt, vegna þess að réttur þm. til að spyrja er í raun og veru gagnslaus, nema því fylgdi einhver skylda fyrir ráðh. til að svara, svo að ég geri ráð fyrir því, að réttur skilningur á þessu ákvæði mundi leiða til, að það væri heimilt að setja það ákvæði inn í frv., sem n. leggur til og gerir að sinni brtt., þótt það hafi ekki áður verið í l.

Ég vil taka það fram, að ég er að efni til samþ. frv. því, sem hér liggur fyrir, og einnig till. n. og álít, að hún fái staðizt, þótt á takmörkum sé. Formlega skilst mér, að forseti verði a. m. k. að hafa á þessu vakandi auga og gera hv. d. grein fyrir því, hvort hann telur þessi ákvæði heimil eða ekki. Hitt vil ég taka fram varðandi efnishlið málsins, að þótt það sé tekið fram, að ráðh. sé skyldur til að svara fsp., þá mundi oft og tíðum vera opin leið fyrir hann út úr þessu með því að segja: Að efni til get ég ekki svarað fsp. að þessu sinni. Það getur ekki legið í þessu frv. eða ákvæði því, sem nú er ráðgert að setja þarna inn, skylda til handa ráðh. um að upplýsa mál frekar en ráðh. eða ríkisstj. telur heimilt að gera samkv. hagsmunum ríkisins á hverjum tíma. Vil ég leyfa mér að beina þeirri spurningu til hv. frsm. allshn., hvort hann hafi ekki sama skilning á þessu ákvæði eins og ég hef nú lýst, því að ekki er hægt að samþykkja ákvæðið svo fyrirvaralaust, eins og það er orðað í brtt. n., ef það felur í sér skilyrðislausa skyldu ráðh. að svara fsp.