26.11.1946
Efri deild: 20. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

85. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, var frv. um þetta efni flutt af heilbr.- og félmn. Nd. á síðasta reglulegu þingi. Var það flutt fyrir beiðni stjórnar Ljósmæðrafélags Íslands. Frv. gekk þá gegnum Nd. Að vísu voru gerðar á því ofur litlar breyt. í meðferð d. Nú hefur heilbr.- og félmn. þessarar d. verið beðin að flytja frv., eins og það var orðið eftir 3. umr. í Nd. á síðasta reglulegu þingi. N. hefur orðið við þessari ósk að flytja frv. inn í þingið. Hins vegar hafa einstakir nm. ekki enn tekið afstöðu til frv. efnislega. Ég geri því ráð fyrir, að það verði að lokinni umr. að vísa því til n., annaðhvort heilbr.- og félmn. eða ef til vill fjhn., vegna þess að frv. felur m. a. í sér breyt. á launum ljósmæðra.

Helztu breyt., sem þetta frv. felur í sér, eru þær, að í ljósmæðral., eins og þau eru nú, eru ákveðin föst laun öllum ljósmæðrum, hvort sem er í kaupstöðum eða sveitaumdæmum, en fyrsta breyt., sem þetta frv. felur í sér, er sú, að ætlazt er til, að laun ljósmæðra í kaupstöðum verði ekki ákveðin með l., heldur verði laun þeirra ákveðin af viðkomandi bæjarstjórn, þannig að ljósmæður í kaupstöðum fái aðstöðu til að semja við viðkomandi bæjarstjórn um upphæð launa sinna og að þá verði tillit tekið til launa annarra starfsmanna viðkomandi bæjar við þær ákvarðanir.

Í öðru lagi er það ákvæði í frv., að laun annarra ljósmæðra séu ákveðin í l. áfram, en nokkur breyt. gerð til hækkunar. Er lagt til, að í þeim umdæmum, þar sem fólkstal er 300 eða minna, skuli árslaun vera 500 kr., en í núverandi l. er það 300 kr., svo að þar er 200 kr. hækkun yfir árið, en í umdæmum, sem hafa fleiri en 300 manna, skuli árslaunin vera 500 kr., að viðbættum 16 kr. fyrir hverja fulla fimm tugi manna, sem eru fram yfir 300. Í núverandi l. er grunnupphæðin 300 kr., eins og í fyrri liðnum, en viðbótin er 10 kr., svo að þar er breyt. sú, að í staðinn fyrir 300 komi 500 og í staðinn fyrir 10 kr. viðbót komi 16 kr.

Þá er samkv. 3. lið gert ráð fyrir, að í umdæmum, þar sem fleiri en ein ljósmóðir eru skipaðar, skuli deila íbúatölunni jafnt á milli þeirra og því næst reikna þeim laun á sama hátt og öðrum skipuðum ljósmæðrum, þó ekki yfir 1600 kr. í byrjunarlaun. Þá er einnig lagt til, að launin skuli hækka eftir 5 ár um 85 kr. og eftir önnur 5 ár um 85 kr., en í núverandi l. er það 50 kr.

Þetta eru þá þær breyt., sem gerðar eru til hækkunar á launum ljósmæðra í frv. frá núverandi l., annars vegar að ljósmæðrum í kaupstöðum sé gefið tækifæri til að semja við viðkomandi aðila um laun sín og í öðrum umdæmum séu þau hækkuð, eins og ég hef gert grein fyrir.

Eins og ég sagði, þá hefur n. í heild ekki tekið afstöðu til frv. efnislega og þar á meðal ekki til launahækkunarinnar, sem þar er um að ræða, en mér þykir sennilegt, þar sem laun ljósmæðra eru svo lág sem raun ber vitni, að ekki verði andstaða gegn því, að frv. nái fram að ganga. Hér á þingi hefur verið til meðferðar breyt. á launum hreppstjóra, þar sem gert er ráð fyrir hækkun á launum þeirra. Þessar tvær stéttir eru að vísu ekki sambærilegar að öðru leyti en því, að þær eru báðar lágt launaðar, og mér þykir sennilegt, að það verði ekki andstaða gegn því, að þessar launabætur nái fram að ganga.

Þá er lagt til, að á eftir 1.–3. lið komi ný málsgr. um það, ef tveimur eða fleiri ljósmóðurumdæmum er steypt saman í eitt umdæmi, hvernig þá skuli haga launagreiðslum. Þetta er tekið orðrétt upp úr breyt., sem gerð var á ljósmóðurl. 1944, en það þótti hentugra, þegar á ný var gerð breyt. á þessum l., að taka þetta ákvæði inn í frv. og fella l. þannig í eitt.

Þá er lagt til, að 8. gr. ljósmæðral. verði felld niður. Í 8. gr., eins og hún er nú, er kveðið á um gjald fyrir aukastörf ljósmæðra. Þetta gjald er mjög lágt, það er frá gömlum tímum, en eftir því sem landlæknir hefur upplýst í umsögn sinni um frv. frá síðasta þingi, hefur borið á því, að suma staðar hafi verið tilhneiging til þess að binda ljósmæður við þessi l. og úrelt gjöld fyrir aukastörf sín, þó að það hafi ekki verið gert á öðrum stöðum. Það þykir þess vegna ástæða til að fella þessa gr. niður, og er gert ráð fyrir í 3. gr. frv., að upp í 9. gr. l. verði tekin ákvæði, að laun fyrir aukastörf ljósmæðra verði ákveðin með reglugerð, sem landlæknir setur í samráði við aðalkennara ljósmæðraskólans og viðkomandi ráðh. verður síðan að staðfesta.

Ég held, að þetta séu þær helztu breyt., sem þetta frv. felur í sér. Eins og ég hef áður tekið fram, hefur n. ekki efnislega tekið afstöðu til málsins, og tel ég því rétt, að þótt það sé flutt af n., þá verði málinu að umr. lokinni vísað til n., hvort sem það verður fjhn. eða heilbr.- og félmn., sem líka gæti komið til greina.