12.12.1946
Efri deild: 32. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

85. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv., og hún er efni þess samþykk, en meginefni þess er það að bæta nokkuð kjör ljósmæðra. Það má nú sjálfsagt deila um það, hvort kjör ljósmæðra séu góð, slæm eða hæfileg, og í raun og veru hefur n. ekki lagt neinn dóm á það. Álit um þetta fer að sjálfsögðu eftir því, við hvað er miðað. Ef miðað er við það, að ljósmóðurstarfið eigi að vera aðalstarf þeirrar konu, sem gegnir því, þá er það auðvitað mál, að það starf er ákaflega lágt launað í fámennari héruðum, en aftur er á hitt að líta, að ljósmóðurstarfið í fámennari héruðum er ekkert ævistarf. Þar er það víða, sem ljósmóðirin er gift kona, sem býr sínu búi og tefst ákaflega lítið við það frá heimilisstörfum. Ég þekki dæmi þess, að ljósmóðirin hefur 2 til 3 fæðingar á ári, og frá því sjónarmiði séð, hygg ég, að ljósmóðurstarfið sé nú þegar án lagabreyt. mjög vel borgað, samanborið við þann tíma, sem í það fer. En þetta var í raun og veru ekki sjónarmið n., heldur hitt, að það er, hvað sem þessu líður, miklum erfiðleikum bundið að fá konur til þess að gegna þessu starfi, og n. hafði þann tilgang að bæta launakjör ljósmæðra, til þess að þetta starf yrði eftirsóknarverðara og þar af leiðandi hægara að fá konur til að gegna því. — Þótt n. sé meginefni frv. samþykk, þá álítur hún þó rétt að gera tvær breyt. á frv. Fyrri breyt. er við 1. gr. frv. og eru það reyndar tvær breyt., sem n. leggur til að gerðar verði við þá gr. Sú fyrri er aðeins orðabreyting, sem sé að fyrir orðið „dýrtíðaruppbót“ í 5. mgr. komi: verðlagsuppbót. Þetta er aðeins til samræmingar við önnur l., því að þessi uppbót heitir nú verðlagsuppbót, en ekki dýrtíðaruppbót. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því, að þessi a-liður fyrri brtt. n. hefur verið tekinn upp tvisvar, en á auðvitað ekki að vera nema einu sinni. (Forseti: Það hefur verið athugað.) Í öðru lagi er b-liður fyrri brtt. um það, að orðið „hálf“ í 6. málsgr. falli burt, en svo er ákveðið í þessari 6. málsgr. 1, gr., að skipaðri ljósmóður, sem falið er um stundarsakir að gegna nágrannaumdæmi, beri að greiða fyrir það hálf byrjunarlaun þess umdæmis. Samkv. brtt. n. verður þetta þá þannig, að ljósmóður, sem sett er til þess að gegna nágrannaumdæmi um stundarsakir, ber að greiða full byrjunarlaun þess umdæmis, en ekki hálf. Er þetta aðeins í samræmi við 4. málsgr. í þessari sömu gr., sem gerir ráð fyrir, að ef tveimur eða fleiri ljósmóðurumdæmum er steypt saman í eitt umdæmi, fyrir það að sýnt þykir, að umdæmin fáist ekki skipúð hvort í sínu lagi, er ráðh. heimilt að ákveða ljósmóður hins nýja umdæmis laun, er nema mega allt að samanlögðum launum hinna fyrri umdæma. N. lítur svo á, að sett ljósmóðir eigi ekki að vera réttlægri en skipuð, og byggist þessi till. n. raunar á því sama og yfirleitt meðmæli n. með frv., að það hefur oft gengið illa að fá ljósmæður til að gegna nágrannaumdæmum, og mundi það væntanlega ganga betur, ef þetta ákvæði verður samþ., sem n. leggur til. Síðari brtt. n. er efnisbreyting við 2. málsgr. 3. gr., en hún er þannig nú, að ef sængurkona þiggur af sveit eða er svo fátæk, að hún getur ekki borgað, þá á ljósmóðir heimtingu á, að sveitarsjóður greiði henni þóknunina fyrir yfirsetustarfið og nauðsynlega aðhjúkrun, og skal ekki telja þau gjöld sem veittan sveitarstyrk. Fjhn. þykir hins vegar réttara, að þarna sé tekið tillit til tryggingarl., sem ætla sængurkonum ákveðinn styrk við hverja barnsfæðingu og leggur því til, að málsgr. sé umorðuð þannig, að „ef sængurkona er svo fátæk, að hún, þrátt fyrir ákvæði 34. gr. l. um almannatryggingar frá 7. maí 1946, getur ekki borgað, þá á ljósmóðir heimtingu á, að sveitarsjóður greiði henni þóknunina fyrir yfirsetustarfið og nauðsynlega aðhjúkrun, og skal ekki telja þau gjöld sem veittan sveitarstyrk,“ með öðrum orðum að fyrst komi greiðsla trygginganna til greina, áður en farið er að gera sveitarsjóði að greiða fyrir sængurkonu. Virðist n. þetta í alla staði eðlilegra, þótt deila megi um það, hvort nauðsynlegt sé að taka þetta fram, því að það kann ef til vill að hafa legið í orðalagi frv., eins og það lá fyrir, en á þetta mun hafa verið bent við 1. umr. málsins, og þótti n. því rétt að taka af öll tvímæli í þessum efnum. Þess skal að lokum látið getið, að einn nm., hv. 7. landsk. þm. (GÍG), var ekki viðstaddur, þegar n. afgreiddi þetta mál, og ber hann því enga ábyrgð á afgreiðslu þess.