16.12.1946
Efri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

85. mál, ljósmæðralög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Á þskj. 208 eru tvær brtt., sem ég stend að með öðrum þm. Fyrri brtt. er við 1. gr., tölul. 3. Í staðinn fyrir „5 ár“ á tveim stöðum komi: 3 ár. Það er með öðrum orðum ætlazt til, að sú hækkun, sem ljósmæðrum er ætluð eftir aldursþjónustu, verði fyrr en frv. gerir ráð fyrir. Þessi hækkun er lítilfjörleg, 85 kr. á 5 árum, og sýnist ekki ástæða til að láta þær bíða eftir þessari hækkun lengur en 3 ár, eins og við leggjum til, þannig að þær fái fulla hækkun á samtals 6 árum í stað þess, að þær fái hana á 10 árum, eins og ráð er fyrir gert í frv. Þetta er líka í meira samræmi við launal., sem ákveða ýmsum hækkanir á 2 eða 3 ára fresti, en engum á 5 ára fresti, eins og farið er fram á, að gert verði í þessu frv.

Hin brtt. er við síðustu gr., þar sem við leggjum til, að aftan við 5. gr. bætist: og skulu ljósmæðrum í fyrsta sinn greidd laun eftir þeim á manntalsþingum 1947. Það mun vera álitamál, hvort ljósmæðrum á næstu manntalsþingum beri að fá laun eftir þessum l. eða eftir eldri l., og til þess að ekki gæti verið um að villast, þótti okkur rétt að taka það beint fram í síðustu gr., að ljósmæðrum skuli í fyrsta sinn greidd laun eftir þessum l. á manntalsþingum 1947. Þetta orkar þá ekki tvímælis og er þá líka í samræmi við önnur l., sem við höfum haft hér með að gera, þ. e. l. um breyt. á l. um laun hreppstjóra. — Vænti ég svo þess, að hv. n. og þd. geti fallizt á þessar brtt. og að þær verði samþ.