07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það er eins með þessa gr. og ýmsar aðrar, sem hv. þm. Barð. gerði brtt. við og fékk sumar samþ., að ég tel þær langflestar tiltölulega þarflitlar.

Það, sem hv. þm. setur fyrir sig, er, að barnaverndarn. sé heimilt að setja þeim börnum eftirlitsmann, er misst hafa annað foreldrið eða bæði. Það er alveg gefinn hlutur, þó að barnaverndarn. hafi spjaldskrá yfir þessi börn, að hún mun ekki fara að setja slíkum börnum eftirlitsmann, ef þau njóta umönnunar annars foreldrisins, ef það rækir skyldu sína gagnvart barninu. En þau tilfelli gætu hins vegar komið fyrir, enda þótt annað foreldrið sé á lífi, að ekkert væri á móti því, að barnaverndarn. hefði heimild til slíks.

Ég tel því ekki ástæðu til að fresta nú afgreiðslu þessa máls, þó að þessi till. kæmi fram, og get sætt mig við það, að atkv. skeri úr um það, hvort þessi skrifl. brtt. verður samþ. eða ekki. En ég sé ekki ástæðu til þess að greiða henni atkv.