20.03.1947
Neðri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Arnfinnur Jónsson:

Herra forseti. Þetta er nú þriðja þingið, sem tekur þetta frv. til meðferðar, og í öll þrjú skiptin hefur það fengið greiða og góða meðferð hér í hv. Nd., en tvisvar hefur það verið stöðvað í hv. Ed., en nú í þriðja sinn er það komst í gegnum þá d., er þannig frá því gengið, að það er í raun og veru ónýtt, því að það er ekki einasta, að þetta frv. hafi verið ónýtt með þeim breyt., sem gerðar voru á því í Ed., heldur hafa eldri l. um þetta efni, sem þetta nýja frv. átti að bæta mjög úr, einnig verið ónýtt, þ. e. a. s. ástandið verður verra en það hefur verið samkv. núgildandi l., því að með breyt. Ed. hafa fulltrúar í barnaverndarnefndum verið gerðir óstarfhæfir með innskotinu í 16. gr., þar sem barnaverndarnefndum er bannað að rannsaka eða grennslast eftir högum barna á heimilum, nema leyfi barnaverndarráðs komi fyrst til. Ég þykist vita, að þessu ákvæði hafi ráðið ókunnugleiki hv. þm. í Ed., og ég vildi óska, að þeir vildu kynna sér, hvernig störfum barnaverndarnefndar í Rvík er háttað, en störf hennar eru að sjálfsögðu margþættari en störf annarra barnaverndarnefnda. Barnaverndarnefndin hér hefur sitt fasta starfslið, t. d. hjúkrunarkonu og fulltrúa, sem annast hin daglegu störf. Þau verða oftast að gera sínar ráðstafanir fyrirvaralaust upp á væntanlegt samþykki barnaverndarnefndar, og menn sjá, hvernig það mundi verða í framkvæmdinni, ef barnaverndarnefnd þyrfti í hverju tilfelli fyrst að leita samþykkis barnaverndarráðs og síðan gefa starfsfólki sínu fyrirskipanir. Það kemur oft fyrir, að menn eru kallaðir út seint að kvöldinu vegna óreglu á heimilum, veikinda o. s. frv., og þá er ekkert svigrúm til að kalla saman fund. Þá verður að bregða við um leið og gera það, sem sá álítur réttast, sem til er kvaddur. Ég hef nú átt sæti í barnaverndarnefnd Rvíkur á fimmta ár og ætti því að vera kunnugur starfsháttum hennar, og aldrei hefur það komið fyrir allan þennan tíma, að n. hafi lagzt á móti þeim ráðstöfunum starfsmanna sinna, sem þeir hafa orðið að gera upp á eigið eindæmi, og ekki man ég til, að slíkar ráðstafanir nefndarformanns hafi nokkru sinni verið ónýttar. En ef svipta, ætti barnaverndarnefnd og starfsfólk hennar rétti til ráðstöfunar, þá væri það fólk þar með gert óstarfhæft, því að í langflestum tilfellum eru þessi mál mjög aðkallandi, og velferð barnanna er í voða, ef ekki er að gert þegar í stað. Á þetta er greinilega bent í umsögn barnaverndarnefndar og barnaverndarráðs í Rvík, sem hv. frsm. drap á áðan. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða mikið meira um þetta mál hér. Hv. Nd. hefur ætíð tekið á þessu máli með vinsemd og skilningi, og ég óska og vona, að hv. Ed. taki breyt. sínar til nánari yfirvegunar, og þá er ég sannfærður um, að sú hv. d. mundi ganga úr skugga um það, að þessi ákvæði hennar mega ekki vera í þessum væntanlegu l., ef þau eiga að verða að gagni.

Um innskot Ed. í 23. gr., er það að segja, að þegar talað er um munaðarlaus börn, er naumast í sömu andránni unnt að tala um „nánustu ættingja“, og er barnaverndarnefnd því sjálfkjörin til ráðstöfunar barninu. Væru slíkir ættingjar til, mundi í flestum tilfellum ekki hafa þurft að leita til barnaverndarnefndar, en einmitt vegna þess er leitað til n., að barnið er munaðarlaust. Og reynslan hefur orðið sú, að afskipti fjarskyldra ættingja af börnum hafa orðið börnunum til óþurftar. Ættingjarnir hafa ekki alltaf hugsað um hag barnsins sem skyldi. Stundum reyna þeir að ná sér niðri á öðrum ættingjum í slíkum tilfellum, og eru börnin oft notuð í slíkum leik. En n. ber einmitt sð vernda börnin fyrir slíku, að þau séu notuð þannig af þeim, sem þykjast hafa tilkall til þeirra.

Í barnaverndarnefnd Rvíkur er kosið pólitískt, eins og kunnugt er, en aldrei hefur þar orðið ágreiningur um neitt mál vegna pólitísks skoðanamunar, þar hefur ríkt fullt samkomulag um öll mál. Ef einhver nm. hefur verið í vafa um eitthvað, hefur hann fengið nægan tíma til umhugsunar og til að afla sér allra fáanlegra upplýsinga í málinu, og reynslan hefur orðið sú, að allar ályktanir n. hafa orðið einróma. Þar hefur enginn reynt að vera öðrum vitrari til þess eins að sýnast vitrari, heldur hafa allir reynt að gera það, sem þeir álitu réttast og börnunum fyrir beztu. Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Ég endurtek það, að ég vona, að hv. Ed. athugi þetta mál gaumgæfilega.