17.01.1947
Efri deild: 52. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

40. mál, heimilisfang

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að með þessari lagabreyt. er verið að lappa upp á lagasetningu, sem margar breyt. þarf að gera við. Ég tel, að á hverju ári séu a.m.k. 300 til 400 manns, sem ríkisskattan. veit ekkert um, hvar hafi heimilisfestu, og bera því engin opinber gjöld. Ég benti líka á það, að ákvæðin í lögunum eru svo óljós um heimilisfestu manna, að ekkert gagn er hægt að hafa af þeim, þegar á að skipta útsvörum eða ákveða, hvar útsvar skuli greiða. Þess vegna bað ég hv. allshn., þegar hún fékk þetta frv. til meðferðar, að gera gagngerða endurskoðun á þessari lagasetningu, og þar eð litið er um þingstörf um þessar mundir, að leggja þá vinnu í þetta mál að gera frv. um þessi efni, sem gagn væri í. Hv. frsm. allshn. er hér enn ekki mættur. en í hans stað hefur hv. þm. Seyðf. (LJóh) hlaupið í skarðið, og minntist hann ekki einu orði á það, hvort hv. n. hefði tekið þessar óskir mínar til greina. Ef n. hefur ekki tekið þær til athugunar, vildi ég fá að vita, hvers vegna það hefur ekki verið gert og hvort henni finnst þessi lagasetning svo ágæt, að nú bæri aðeins að gera þennan viðauka við l., eða hvort hún hafi haft svo mikið að gera á þessu þingi, að hún hafi ekki séð sér fært að leggja vinnu í að gera frv. um breyt. á þessum l., sem ég tel nauðsynlegar.