20.03.1947
Neðri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Katrín Thoroddsen) :

Ég vil þakka þm. V-Húnv. fyrir vinsamlegar bendingar. N. getur ekki fallizt á þá úrfellingu í 33. gr., sem Ed. hefur gert, því að hún telur, að fullkomin þörf sé að hafa eftirlit með þeim börnum, sem ekki njóta umsjónar foreldra.

Þá getur n. ekki fallizt á, að barnaverndarráð þurfi að fjalla nokkuð um það, ef tilefni gefst til að fara inn á heimili eða hæli til þess að rannsaka hagi barns eða ungmennis. Ég skil það ekki, hvers vegna barnaverndarnefndinni er ekki fullkomlega trúandi til að gera slíkt eftir eigin dómi á þörfum til þess. Það getur oft komið fyrir, að slíkt þurfi að framkvæma fljótt, ef veikindi, lausung eða limlestingar eiga sér stað, en með því ákvæði, sem Ed. setti inn í frv., mundi allt slíkt eftirlit verða stirðara. Ég sé heldur enga ástæðu til þess að vantreysta barnaverndarnefnd. Hún er kosin af bæjarstj. og skipa hana færustu menn, meðal annars bæði læknar, skólastjóri og kennari. Þá er það líka aðhald fyrir n., að sá, sem telur sig órétti beittan af hennar hálfu, getur vísað máli sínu til barnaverndarráðs.

Varðandi 23. gr. tel ég viðbót Ed. ekki til bóta, en hún er um það, að nánustu ættingjar skulu samþykkja verustað barns, sem komið er fyrir. Það er venja að leita til þeirra ættingja, sem láta sér hag barnsins varða, og ráðstafa þeir þá barninu í samráði við n., ef þeir hafa tök á því. En hins vegar getur svo farið, ef um brekabörn er að ræða og venjulegur barnalífeyrir nægir ekki til meðgjafar með barninu, að ættingjarnir vildu velja þann stað, sem ódýrastur væri, en samþykktu ekki góðan stað, sem n. hefði völ á, vegna þess að hann væri allmiklu dýrari. Slíkt má að sjálfsögðu ekki vera til fyrirstöðu. Það sjá allir.