27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi taka það fram, að meiri hl. heilbr.- og félmn. þessarar d. hefur ekki fallizt á þessar brtt. hv. þm. Barð., svo að þær eru frá honum einum. Nú höfðu þessar brtt. verið settar í frv., áður en það var afgr. frá þessari d., en verið felldar úr af Nd., vegna þess að barnaverndarráð hefur ákveðið mótmælt þeim og talið alveg óviðunandi, að málið væri þannig afgr. frá þingi. Sérstaklega vill það leggja áherzlu á, að brtt. hv. þm. Barð. við 16. gr. verði ekki samþ., heldur verði gr. í sínu upprunalega formi. — Mér virðist ekki þörf á að ræða þetta miklu nánar.

Það sjónarmið, sem aðallega kemur fram hjá hv. þm. Barð., virðist vera það, að hann tortryggi mjög barnaverndarn. um það, að hún muni koma fram á þann veg, sem ekki sé börnum eða forráðamönnum þeirra holl afskipti, m. ö. o., að hún hafi sérstaka tilhneigingu til þess að hafa afskipti af börnum og forráðamönnum þeirra að ástæðulausu. Mér er óskiljanleg þessi tortryggni hans gagnvart barnaverndarn., vegna þess að ég hef ekki orðið var við rökstuddar kvartanir um starfsemi n., og meðan svo er, virðist mér vera með öllu ástæðulaust að samþykkja þessa brtt. hv. þm. Barð. Mér virðist barnaverndarráð háfa nógum störfum að sinna, þó að það fari ekki að skipta sér af öðru en brýna nauðsyn ber til. Það mun frekar öfugt, að um það hefur verið kvartað, að barnaverndarráð hafi ekki haft aðstöðu til, eins og nauðsyn hefur krafizt, að skipta sér af málefnum þeirra barna, sem þurft hafa sérstakrar umhyggju af hálfu hins opinbera.

Það er í raun og veru auðskilið, að n. þyki nokkuð viðurhlutamikið, að 16. gr. sé í því formi, sem hv. þm. Barð. vill, vegna þess að ef leita þarf samþykkis barnaverndarráðs í hvert skipti, sem barni er ráðstafað í fóstur, þá verður það allt of þungt í vöfum, og getur það gert barnaverndarnefndum úti á landi nærri ómögulegt að starfa, a. m. k. torveldað svo starf þeirra, að mikil óþægindi hlytust af því. Þetta samþykki barnaverndarráðs virðist mér vera aðalatriðið í brtt. hv. þm. Barð. við í 6. gr., en mér skilst, að barnaverndarráð leggi mest kapp á, að sú gr. verði í sínu upprunalega formi. Hvað viðvíkur 23. gr. frv., þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana, eins og hún er í frv.: „Ef barn verður munaðarlaust, skal barnaverndarnefnd aðstoða þá, sem láta sig hag þess varða, eða hreppsnefnd eða framfærslunefnd, við að koma því í fóstur á gott heimili, enda er óheimilt að vista slík börn á öðrum heimilum en þeim, sem barnaverndarnefnd sú, er í hlut á, samþykkir.“ Þetta mundi framkvæmt þannig, þótt frv. verði ekki breytt, í öllum tilfellum, þar sem ekki er um að ræða, að nánustu ættingjar óskuðu eftir að vista barn á heimili, sem að dómi barnaverndarnefndar er ekki fært um að ala upp barn. Það er engin ástæða til að ætla það, að barnaverndarnefnd vilji vista barn á heimili, sem ættingjar vilja ekki, nema brýna nauðsyn beri til, en sé um að ræða ágreining um þetta, hlýtur hann að stafa af því, að heimili það, sem ættingjar barnsins vilja vista það á, er ekki fært um að sjá því fyrir viðunanlegu uppeldi. Og ef ágreiningur er á milli þessara aðila, ættingja og barnaverndarn., þá verður einhver að skera úr, og það er augljóst mál, að ekki kemur til mála, að annar geri það en barnaverndarn. Af þessum ástæðum vil ég einnig leggja á móti þessari brtt. hv. þm. Barð. Sami andinn er í brtt. við 33. gr., þar sem hún fellir í burtu þau ákvæði, að barnaverndarri. megi hafa eftirlit með þeim börnum, sem misst hafa annað foreldri eða bæði. Með öðrum orðum, hv. þm. Barð. gerir ráð fyrir því, að þar sem ekki er neinn eftirlitsmaður og börn hjá góðum fósturforeldrum, þá fari n. að hafa óþarfa afskipti af þeim. Það er engin ástæða til þessa gruns. Hins vegar virðist mér nauðsynlegt, að þegar um umkomulaus börn er að ræða, þá sé barnaverndarn. skylt að hafa eftirlit með þeim, eftir því sem nauðsyn krefur.

Það er í fjórða sinn, sem þetta mál er fram borið hér á Alþ., og nú virðist það þó komið í það horf, að útlit er fyrir, að það verði afgr. Verði þessar brtt. hv. þm. Barð. aftur á móti samþ. og fari málið til sameinaðs þings, þá skilst mér, sð málinu sé enn í fjórða skipti stofnað í nokkurra hættu, og vildi ég þess vegna, af því að nokkuð er nú áliðið þings, ákveðið mælast til þess, að þessar brtt. verði ekki samþ.