27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka fram út af ummælum hv. 4. landsk., að það er ekki rétt, að n. megi ekki hafa eftirlit með börnum, þótt þau hafi ekki misst foreldra sína. Samkv. núgildandi l. hefur barnaverndarnefnd rétt til þess, ef ástæða er til, en nú er n. gefinn réttur til að hafa sérstök afskipti af börnum, ef þau hafa misst annað eða bæði foreldra sinna, og eru þau þá spjaldmerkt hjá barnaverndarnefnd vegna þeirrar sorglegu ógæfu. Hvað snertir vald n. til að vaða inn á heimili manna, þá finnst mér hv. 4. landsk. ekki leggja mikið upp úr samúð við framkvæmd þessara l., sem Gissur Bergsteinsson hæstaréttardómari samdi, og leggur hann mikið upp úr, að fullkomin samúð sé við höfð um framkvæmd þeirra. Ég hef engar sannanir fyrir því, að ekki gæti komizt þeir menn í n., sem notuðu aðgang sinn til að troðast inn á heimili manna í allt öðrum erindagjörðum en til er ætlazt. Hv. 4. landsk. talaði um, að það væri í fjórða skipti, sem þetta frv. væri hér. Það er vegna þess, að alltaf hafa verið svo miklir ágallar á frv., að menn hafa heldur viljað fella það en samþykkja það, svo gallað sem það væri, og er vafasamt, hvort ekki sé betra að búa við núgildandi l. í þessu efni. Ég er þeirrar skoðunar, að fella beri frv. heldur en samþykkja það með þeim göllum, sem á því eru, og vænti ég því, að þessar till. verði samþ., og er þá málinu borgið.