27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

94. mál, vernd barna og ungmenna

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. sagði, að frv. hefði strandað svo oft vegna svo mikilla galla, en það eru tylliástæður einar, því að frv., var vel undirbúið, og harmaði Gissur Bergsteinsson, að frv. var orðið lakara í meðferð þingsins. Annars virðist sjónarmið hv. þm., að hann leggur afskipti n. af börnum við afskipti lögreglunnar, þegar gerð er þjófaleit. Einnig sagði hv. þm., að n. gæti framið spellvirki á heimilum. Þetta er allt annað sjónarmið en þeir hafa, sem sömdu frv., og sé ég ekki, hvaða rök hann færir fyrir þessum skoðunum. Ef reynsla sýnir, að barnaverndarnefnd velur menn, sem þarf að varast, þá er nógur tími til að gera ráðstafanir gegn því. Út af 33. gr. þá er hér ekki um annað að ræða en að n. er gert að skyldu að líta eftir munaðarlausum börnum, og get ég ekki annað séð en að það sé til bóta, og er því engin ástæða til að breyta því, nema síður sé.