17.01.1947
Efri deild: 52. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

40. mál, heimilisfang

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. það er í sjálfu sér ekki mikið um þetta mál að segja, þar eð það liggur ákaflega einfalt og augljóst fyrir. það hefur hér verið borið fram lagafrv., sem allshn. mælir með, að samþ. sé með lítilfjörlegri orðabreyt., þar sem fært er til betra máls frá því, sem upphaflega var lagt til. Ég sé ekki. að inn í þetta þurfi að blanda ásökunum á n. fyrir það að hafa ekki tekið að sér það hlutverk að semja breyt. við þessi l., sem einhverjum manni hefur einhvern tíma dottið í hug, að æskilegt væri að semja. Þeim, sem hafa um þetta ákveðnar hugmyndir, er að sjálfsögðu heimilt að koma þeim á framfæri við n., og síðan er það hlutverk hennar að taka þær til athugunar, en einstakir þm. geta hins vegar ekki ætlazt til þess, að n. taki af þeim ómakið og semji fyrir þeirra hönd breyt. á nýju frv., sérstaklega þar sem hv. 1. þm. N–M. á hlut að máli, því að vitanlega erum við ekki menn til að fara í skóna hans, svo að það yrði hálfgert athlægi, sem frá okkur kæmi, miðað við það, að hann sjálfur tæki sér penna í hönd og setti á pappír sín hugarfóstur.