05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

183. mál, manneldisgildi hveitis

Frsm. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur við 1. umr. þessa máls, en átti hins vegar að hafa í því framsögu af hálfu heilbr.- og félmn. Ég vona því, að forseti misvirði það ekki við mig, þó að ég fari um það nokkrum orðum nú við 2. umr. Þetta frv. fer fram á að heimila ráðherra að tryggja manneldisgildi hveitis, sem selt er á íslenzkum markaði. Nú vita allir, að það er ekki nóg, að fæðan innihaldi eggjahvítu, kolvetni og fitu, það þurfa líka að vera til staðar ýmis bætiefni. Það er einkum B-vítamínið, sem á skortir í fæðu okkar, en á meðan við lifðum mest á rúgi, var þetta þó ekki eins tilfinnanlegt. Nú þegar hveitinotkunin er að aukast svo mjög sem raun ber vitni, þá er nauðsynlegt að tryggja manneldisgildi þess, og þá einkum, ef unnt er að láta það innihalda B-vítamín, sem vitað er, að mjög mikið er af í hveitinu ósálduðu. Það er því hér um tvær leiðir að ræða, önnur er sú að sálda hveitið minna, en hin að bæta B-vítamíni í hveitimjölið. Þessar aðgerðir mundu auka mjög næringargildi hveitis, en sá er tilgangurinn með þessu frv. Ég vænti því, að frv. verði samþ.