27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

132. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég vil fara hér örfáum orðum um þetta frv. og sérstaklega vegna þess, að landbn. gat ekki alveg orðið sammála um afgreiðslu þess. Fjórir nm. héldu saman í þessu máli, að vísu skrifaði hv. 8. landsk. undir með fyrirvara, en hinir þrír fyrirvaralaust. Þetta frv. er um að fjölga dýralæknum um tvo, og hafi annar aðsetur í Skagafirði eða Húnavatnssýslu, eu hinn í sveit við Breiðafjörð. Frv. er flutt af hv. þm. Skagf., þm. A-Húnv. og þm. Snæf. N. hefur athugað þetta mál og kallað til yfirdýralækni, og lýsti hann sig samþykkan frv. Við teljum þetta frv. mjög til bóta, en gerum ráð fyrir, að allsherjar lög verði sett bráðlega um þetta atriði, sem þá geta breytt þessu, einkum varðandi fyrirkomulag um dýralækna. Hins vegar gat hv. þm. N-M. ekki orðið okkur sammála, og gerðist hann allbraugsmikill. Hann skipaði þar öllum umdæmum læknanna, og gerði það meira af kappi en forsjá. Ég heyrði áðan undir væng, að vafasamt væri, hvort það örnefni er til, sem á að skipta Breiðafjarðarhéraði og Ísafjarðarhéraði, en það á að vera svo nefnd Skorarheiði. Ég verð að segja fyrir mig, að ekki veit ég, hvar þessi Skorarheiði er, og munu víst fáir vita það. Svo fer hv. þm. í hinn endann á þessu og segir, að Dalasýsluumdæmi eigi að ná að Trékyllisheiði. Ég hygg, að Trékyllisheiði liggi upp af Steingrímsfirði, milli hans og Trékyllisvíkur, og er þetta alleinkennileg skipan hjá hv. þm. Ef ekki væri annað, þá læt ég það vera. Hann vill einnig bæta við einu dýralæknis-umdæmi. En ég get ekki séð ástæðu til að fjölga umdæmunum umfram óskir almennings. Svo var eitt, sem ég vildi minnast á, þar sem hann birtir svo margar tölur. Í fyrradag var lýst reikningslist, hans hér af hæstv. samgmrh., og í morgun var henni lýst á búnaðarþingi. Nú vil ég spyrja hv. þm., N-M. Ég lagði saman sauðfjárdálkinn hjá honum, og hygg ég, að hann eigi við allt landið, og þar fæ ég 408 þús. sauðfjár. En eftir búnaðarskýrslum er sauðfé talið vera 538 þús. árið 1944. Hvernig getur staðið á þessum mismun? Þetta getur verið misskilningur, og langar mig til að fá þetta útskýrt. En sem sagt, ég geri ráð fyrir, ef hv. d. vill hjálpa þessu máli áfram og aðstoða þær sveitir, sem skortir dýralækna, þá muni hún samþykkja þetta frv., en láta till. hv. þm. N-M. sigla sinn sjó, því að þær eru ekki til bóta, en geta skemmt frv. Ég veit, að hann hefur reynt að ginna hv. þm. til. stuðnings við sitt mál, og til þess að ég skyldi ginnast, þá stofnaði hann Dalaumdæmi. Það var falleg fluga til að gína yfir, en engu að síður mun ég láta hana fara fram hjá mér.