27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

132. mál, dýralæknar

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég skal koma hér að nokkrum atriðum, áður en ég svara hv. þm. Dal. Í fyrsta lagi er ég á móti því að vera að káka við lög með því að breyta þeim. Það eru nú til tvenn lög um dýralækna. Gera önnur ráð fyrir 4, en hin fyrir 6 dýralæknum, og svo er enn gert ráð fyrir 8 með þessu frv. Í stað þess að gera breytingu á breytingu ofan, vil ég taka lögin í heild og breyta þeim og hafa ein lög aðeins um málið.

Það er erfitt að finna, hvað eru lög í landinu. Varðandi dýralækna munu þau vera tvenn, og er það vissulega ekki til fyrirmyndar. Dýralæknarnir hafa svo stór umdæmi, að þeir komast ekki yfir að vinna þau verk, sem stjórnin skipar þeim að gera. Til staðfestingar þessu skal ég nefna það, að til mun vera reglugerð, sem mælir svo fyrir, að ekki megi selja mjólk í Reykjavík, nema kýrnar séu skoðaðar einu sinni á ári af dýralækni. Þessu er ekki hægt að framfylgja, því að dýralæknarnir komast ekki yfir það. Þó að Selfossdýralæknirinn ynni nótt og dag, kæmist hann ekki yfir það, ef hann ætti að geta sofið 8 tíma á sólarhring. Hann mundi kannske komast yfir það, ef hann ynni allan sólarhringinn. Því vil ég láta skipta umdæmi. hans í tvö, svo að hægt sé að framfylgja þessari reglugerð. En ég vildi beina því til ríkisstj., hvað hún gerði, ef ég settist niður og skrifaði kæru og krefðist þess, að hætt yrði að selja mjólk til Reykjavíkur frá allt að helmingi þeirra staða, sem nú er selt frá. Mundi hún láta bæinn vera mjólkurlausan, eða afnema þessi ákvæði reglugerðarinnar? En ekki er nægilegt að fjölga dýralæknunum. Eins og nú er, vita dýralæknarnir ekki, hver umdæmi þeirra eru. Eftir lögum eiga 2 læknar að vera í Sunnlendingafjórðungi, en ekkert um það, hvaða umdæmi hver þeirra hefur. Nú getið þið spurt Sigurð Hlíðar eða Ásgeir Ólafsson í Borgarnesi, undir hvorn heyri svæðið milli Skarðsheiðar og Hvalfjarðar. Þeir segja báðir, að þeir viti það ekki. Meðan Hannes Jónsson var dýralæknir hér í Reykjavík, mun hann hafa haft það, en nú mun Ásgeir oftast starfa þar, en engin lög eru til um það, heldur eru dýralæknarnir bara skipaðir á þessa staði, og á þessu vil ég ráða bót.

Hv. þm. Dal. var að fetta fingur út í staðanöfn hjá mér og sagði, að Skorarheiði væri ekki til (ÞÞ: Hún er milli Furufjarðar og Hrafnsfjarðar.) Já, en þessi er nú kölluð Sandsheiði, en Skorarheiði er hún kölluð í Ferðabók Eggerts Ólafssonar, en ég vil biðja hæstv. forseta að leiðrétta nafnið í brtt. Trékyllisheiði liggur milli Bjarnarfjarðar og Reykjarfjarðar, og held ég, að hv. þm. Dal. ætti að kynna sér málin betur, áður en hann dæmir um þau. Hitt er svo annað mál, hvort rétt er að haga skiptingunni öðruvísi, en þessi skipting er gerð í samráði við formann og ritara Dýralæknafélags Íslands, en það má vel vera, að hún eigi að vera önnur, en því vil ég slá föstu, að það eigi að vera ákveðin svæði, sem hverju embætti tilheyra, svo að menn geti ekki skotið sér undan skyldu sinni, af því að þeir viti ekki, hvað undir þá heyrir. En ástæðan til þess, að ég vil bæta við Rangárvallahéraði, er sú, að læknirinn kemst ekki einu sinni yfir það, sem hið opinbera skipar honum að gera, burtséð frá því að bændur þurfa hans aðstoð og vænta sér hennar.

Þá var ræðumaður, hv. þm. Dal., að tala um mína talnafræði. Ef hann hefði nú lesið sauðfjárdálkinn hefði hann séð, að á Austfjörðum eru talin 12 þús. í stað 120 þús. fjár. Það hefur fallið úr einn stafur við prentun. Hefði hann lesið dálkinn, hefði hann séð, að það umdæmi er gert fjárfæst, sem er fjárflest, og hefði hann þá getað litið í búnaðarskýrslurnar og séð, hvernig í öllu liggur, og sá hv. þm., sem var með mér að taka upp þessar tölur, man vafalaust einnig, að það eiga að vera 120 þús. Þetta sýnir nú ekki nema eitt, því að sá, sem var að fetta fingur út í þessar tölur, hefur þó ekki betri þekkingu á landinu en svo, að hann heldur, að fjárflesta héraðið á landinu sé það fjárfæsta. Um orðaskipti mín og hæstv. viðskmrh. ætla ég ekki að ræða að sinni, en hv. þm. Dal. getur lagt honum lið, þegar málið kemur aftur fyrir. Fkki ætla ég heldur að ræða um tölur þær, sem ég fór með á búnaðarþingi, en það, sem þar var um að ræða, var tekið beint upp úr reikningum ríkisins, og þó að sumum kunni að koma þær óþægilega, þá standa tölurnar þar, sem þær eru, þó að einhverjir vilji hafa þær einhvers staðar annars staðar.

Nú er það svo, að þetta frv., sem hér er flutt, fer ekki fram á annað en að heimila ríkisstj. að löggilda sem dýralækna menn, sem ekki hafa próf, og borga þeim laun úr ríkissjóði og svo hefur það búið til 2 dýralæknisembætti, en eitt er nú laust. Stjórninni er svo heimilt að skipa í þessi embætti ólærða menn, og er þetta gert í því skyni aleinu, að hingað og þangað á landinu eru menn, sem fengið hafa nokkurn styrk fyrir að starfa sem hjálparmenn við húðfjársjúkdóma. Af þessum styrk greiddi ríkið áður helming, en nú 2/3. Þetta er lítil upphæð, 5, 6 eða 7 þúsund á ári. Til þess að losa sýslurnar við að greiða á móti á að koma þessum mönnum alveg á ríkið. Einn af þessum mönnum hefur frá Skagafjarðarsýslu 12 eða 15 hundruð kr., en honum á nú að létta af sýslunni með því að láta ríkið borga allt. Annar er í Ísafjarðarsýslu, þriðji í Dalasýslu. Einn þeirra er nú orðinn það gamall, að hann er lítt fær til að fara neitt út af heimilinu. Ég læt ósagt, hvort á að löggilda hann, en maður af því svæði er nú að læra í Svíþjóð, og á að vera búið að koma embættinu á stofn, þegar hann er búinn að læra.

Ég er á móti því, að stjórnin eða Alþ. löggildi ólærða menn sem dýralækna. Aldrei hefur það komið til orða að fá sæmilega mælskan mann til að þjóna prestsembætti, ef prest vantar. Nýlega var auglýst, að 10 eða 11 læknisembætti væru laus. Því ekki að reyna að leysa úr þessu með því að leyfa landlækni að skipa menn, sem eru nærfærnir eða hafa fengizt við hómopatí eða bundið um beinbrot, því ekki löggilda þá sem lækna? Það er það sama og hér er lagt til um dýralæknana. Þetta er þó ekki alveg nýtt. Sýslumenn mega t. d. sitja á Alþ. og setja ólöglærða menn í staðinn fyrir sig. Þeir setja þá, sem þeir fá fyrir minnsta borgun. Það er ekki spurt, hvað hver hafi lært, heldur hvort yfirdýralæknir vil ji viðurkenna þá, og þá eru þeir þegar skipaðir dýralæknar. Ég get gengið inn á að veita styrk til afskekktra héraða, sem viðkomandi sveitarstjórn taki við og ráóstafi, og að hún fái þá menn til, sem hún treystir. Á það get ég fallizt, en ekki, að hið opinbera geri þá að dýralæknum. Ég vil styrkja menn til að leita sér aðstoðar, og ég vil hækka styrkinn upp í 4/5, en um leið vil ég, að hið opinbera viðurkenni ekki ólærða menn sem dýralækna, en láti héruðin um að ráðstafa fénu, unz lærður dýralæknir fæst. Dýralæknisnámið er nú orðið 12 ára nám, 6 ár í menntaskóla og 6 ár í háskóla, og ekki getur hver sem er nærfærinn við skepnur orðið dýralæknir, og ef þessu verður svona fram haldið, dettur engum í hug að læra dýralækningar, ef menn verða það, að dómi Alþingis og yfirdýralæknis, við það eitt að taka hildir frá kú. Þetta er ein ástæðan til þess, að ég er á móti þessu frv. Enn fremur er það svo, að það er venja, þegar embætti losnar, að nágrannaembættismanninum eru veitt hálf laun embættisins til viðbótar við sín til þess að þjóna því. Ég veit ekki, hvernig það er í framkvæmdinni, en ég vil slá undir þann varnagla, að menn geti heimtað hálf laun, ef dýralæknislaust er í nágrannahéraði, og hljóðar 4. gr. um það, því að ég tel, að ekki komi til greina, þó að t. d. Selfosshéraði yrði skipt í tvennt, að dýralæknirinn á Selfossi fengi hálf önnur laun, ef ekki fengist strax maður í hitt héraðið. Það er engu breytt, þó að þyrfti að bíða eftir manninum nokkuð, sem yrði þó ekki lengi, því að aukatekjur eru það miklar, að jafnvel yrði hægt að fá erlendan dýralækni, ef á þyrfti að halda. Í því héraði eru svo margir nautgripir, og í sambandi við það legg ég til, að ráðh. ákveði með erindisbréfi taxta fyrir aukaverk dýralækna, en hann er nú enginn til. En dýralæknar þurfa alveg eins að hafa slíkan taxta eins og mannalæknar. Þessi taxti sé settur í samráði við yfirdýralækni og stéttarsamband bænda. Þetta er það, sem ég legg til að breytt verði í frv., frá því sem nú er.

Ég viðurkenni, að það er rétt hjá hv. þm. Dal., að það er fjarri því, að brtt. mínar séu fullnægjandi. Þær þurfa lagfæringar við, sérstaklega að því er snertir sóttvarnir, en um það er ekkert til í ísl. löggjöf, en ég sá mér ekki fært að taka bálk um það inn í frv. Það er alveg rétt, að lögin um dýralækna þurfa endurnýjunar til að koma þeim í viðunandi horf. N. hefði getað gert þetta, ef hún hefði kært sig um. Brtt. mínar eru þó spor í rétta átt, sérstaklega í C-lið (5. gr.), þar sem svo segir, með leyfi hæstv. forseta: „Atvmrh. setur dýralæknum erindisbréf og ákveður í því verksvið þeirra, þar á meðal um eftirlit með verzlun með landbúnaðarvörur og heilbrigði og hollustu þeirra.“

Það þarf vitaskuld að ákveða verksvið dýralækna eins og gert er annars staðar, en nú hafa þeir engin erindisbréf. Um þetta þyrfti frekari ákvæði. En ég hef sýnt fram á, að hér er ófyllt skarð, sem yrði fyllt, um leið og dýralæknir yrði skipaður og fengi erindisbréf. Ég viðurkenni, að þetta er ófullnægjandi til frambúðar og að það þarf að taka þetta til góðrar athugunar. En ég viðurkenni ekki þá ómyndarbót, sem þetta frv. er, að létta smágjaldi af nokkrum sýslum og bæjarfélögum og færa það yfir á ríkið og láta það verða sér til skammar með því að skipa ólærða menn dýralækna. Ég veit, að mínar brtt. ná ekki nema yfir lítið, en þær eru þó mikil bót frá þessari ómynd, og ég vona, að menn sjái það, að þær forða þó ríkinu frá því að verða sér til skammar með því að skipa ólærða dýralækna.