27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

132. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það er eiginlega mjög skýrt, sem kemur fram hjá hv. 1. þm. N-M., og nú koma úlfshárin í ljós undan sauðargærunni. Í upphafi sagðist hann mundi vera með frv., en í lok máls síns sagðist hann vera í móti frv., þar sem það væri alls ekki fullnægjandi, og hefur hér svo þrámælgi til þess að reyna að koma í veg fyrir, að málið nái samþykki.

Hv. þm. gat um það, að ef þetta frv. væri flutt í samráði við dýralækna, þá kæmu umsagnir þeirra ekki fram skriflegar. Hann gat þess, að í landbn. hefði yfirdýralæknirinn verið á sínu máli, en það er bókað, að yfirdýralæknirinn er sammála frv. meiri hl. Sama er upp á teningnum, er hann fer í sauðfjárdálkana, þá hleypur hann í prentvillurnar og forðast að segja frá því, frá hvaða ári sauðfjártalan var.

Um það atriði, að hægt sé að fá menn til að gegna dýralæknisumdæmum, þótt þeir séu ekki með prófi, þá get ég upplýst, að t. d. á Vestfjörðum hefur Ásgeir frá Æðey gegnt dýralæknisstarfi og annar maður úr Önundarfirði, og hafa þeir báðir verið stimplaðir af ríkinu, og í Skagafirði hefur einnig einn maður fengið styrk til þess að gegna dýralæknisstarfi er ekki næst til dýralæknis. Og út frá þessu hleypur þm. í það, hvort sýslumenn megi sitja á Alþ. og fela öðrum starf sitt um stundarsakir, en ég veit nú ekki betur en að ráðunautar Búnaðarfélags Íslands fái að sitja á þingi, og verður jafnvel að fá aðra menn í þeirra stað til að fara út um land til þess að sinna störfum þeirra, en við getum nú mætzt annars staðar með þetta. Ég skal ekki karpa frekar um þetta við hv. þm., því að hann getur alltaf bætt gráu ofan á svart, en þetta frv., sem þm. ber fram, er flausturlegt og mundi verða til baga, en hitt frv. er til bóta. — Ég mun svo ekki anza hv. þm. frekar, nema sérstakt tilefni komi til.