27.03.1947
Efri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

132. mál, dýralæknar

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Þótt þetta séu nú þegar nægar umr., sem hér hafa fram farið í þessu máli, þá finnst mér vera rétt, að ég láti uppi ástæðuna fyrir því, að ég hef skrifað undir nál. frv. þessa, en það er af því, að ég tel frv. vera réttarbót, en ég er þó hins vegar óánægður með þessa nýu lagasetningu til frambúðar. Ég álít þetta skyndilagfæringu til bráðabirgða og að endurskoða þurfi þessi lög, áður en langt líður, og árétta sumt í þeim, sbr. brtt. hv. 1. þm. N-M.

Þótt fjölgað verði dýralæknisumdæmum, þá er alls ekki tryggt, að fáist nógu margir menn, og það yrði því aðeins pappírslækning. Til þess þarf að tryggja undirstöðuna, og menn verða að athuga, að dýralæknisnám er torsótt námsgrein við háskóla og þarf mjög strangan undirbúning, og þarf því að tryggja þeim mönnum, er leggja vilja út í þetta erfiða nám, eitthvað til sæmilegrar afkomu að námi loknu. Auk þess þarf að endurskoða laun dýralækna og jafnframt þarf að ákveða verksvið þeirra, því að þetta getur verið svo fjölbreytt, að álitamál kann að vera, hvort allt eigi heima þar. Á ég hér við það, eins og hv. þm. N-M. tók fram, að dýralæknar komast varla yfir það að hafa eftirlit með þrifnaði og framkvæma kjötskoðun, svo að í lagi sé, ásamt dýralæknisstarfi í stóru héraði. Þetta er svo víðtækt mál og þarf ákveðna endurskoðun.

Ástæðan fyrir því, að ég skrifaði undir nál., er sú, að mörg héruð í Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu hafa engan dýralækni, en fela hefur orðið hómópötum slíkar lækningar þar, en að gera slíkt, án þess að þeir fái a. m. k. fyrirskipanir lærðs dýralæknis, er fjarri mér að mæla með, en jafnfjarri er það mér, að þeir, sem stundað hafa þessi störf án lærdóms í skóla, að standa móti því, að þeir fái viðurkenningu fyrir störf sín, en það fyrirkomulag getur ekki gengið til frambúðar, og mér fyndist nú, að það mætti athuga það, hvort ekki mætti halda námskeið fyrir þá menn, setn stunda dýralækningar án dýralæknisprófs, og gæti hér verið um hæfilegt verkefni að ræða fyrir dýralæknana eða bændaskólana til þess að undirbúa þessa menn til starfs.

Laun dýralækna og starfsvið þarf að ákveða nánar, og rétt er að hefja dýralæknanám hér heima, og er það sagt með fullri virðingu fyrir þeim mönnum, sem líknað hafa og hjálpað veikum skepnum, þótt þeir hafi ekki lært dýralækningar. Ég vil orða þetta frv. sem réttarbót, en tel hins vegar, að það sé mjög aðkallandi að taka þetta allt til ýtarlegrar endurskoðunar hið bráðasta.