11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

132. mál, dýralæknar

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég hef látið mig þetta frv. litlu skipta, þótt ég sé hins vegar ekki fyllilega ánægður með það, en það var komið langleiðis hér í gegnum d., áður en ég varð ráðh. En nú hefur komið til mín nefnd frá dýralæknum og borið fram rökstuddar aðfinnslur gegn þessu frv. eða skipun dýralækna, eins og hún yrði, ef það væri samþ. Ég óska nú ekki eftir sérstökum afskiptum af frv., þegar það er komið á síðustu þröm afgreiðslu, en hinu vil ég lýsa yfir, eins og ég sagði við dýralæknana, að hvort sem það verður samþ. eða því vísað frá samkv. till. hv. 1. þm. N-M., þá mun ég á milli þinga skipa sérstaka menn til að endurskoða dýralæknalöggjöfina og skipan þeirra mála og til að gera till. um þær breyt., sem nauðsynlegastar og eðlilegastar eru að beztu manna yfirsýn, eins og þessum málum er nú komið.