13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

186. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Björn Kristjánsson) :

Herra forseti. Eins og hv. þm. sjá af þskj. 508, hefur sjútvn. Ed. tekið fyrir þetta frv. og mælir einróma með því, að það verði samþ. Ég held, að það sé óþarfi að halda nokkra ræðu um þetta mál, því að mér finnst það vera svo sjálfsagt. Ég gæti flutt ýmis rök til viðbótar hinni stuttu grg., sem frv. fylgir, sem mæla með því, að þetta frv. verði samþ., en ég tel það alveg óþarft. Ég gæti líka nefnt margar hafnir, sem voru teknar upp í þennan flokk hafnarmála á þinginu 1946 og ættu þar síður heima en þessi höfn, sem um langt árabil hefur verið notuð sem smábátahöfn. Þar var t. d. gerður út allstór mótorbátur í nokkur ár og hafði hann öruggt lægi allt árið, og mörg síldarskip hafa oft leitað, þangað inn undan óveðrum um síldveiðitímann. Ég ætla svo ekki að þreyta hv. dm. með ræðu um þetta. Ég vonast til, að þetta nái samþykki hv. d., og mun ekki að svo stöddu, nema tilefni gefist til, flytja lengri ræðu um þetta mál.