25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

147. mál, vegalög

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Það verður ekki annað sagt en að þetta frv. sé sæmilega undirbúið. Það hefur, eins og skýrslan og grg., sem því fylgir, bera með sér, verið rækilega athugað. Það er samið af samgmn. beggja deilda og vegamálastjóra með heildaryfirlit fyrir augum.

Eftir því sem mér er bezt kunnugt, hefur einnig verið reynt að samræma í þessu frv. sem mest skoðanir einstakra hv. þm., sem flutt hafa frv. og brtt., sem lúta að nýjum þjóðvegamálum, og hygg ég óhætt sé að segja, að vel hafi orðið ágengt um að samræma þetta frv. við vilja þeirra aðila í ákvæðum frv., eins og það liggur fyrir nú.

Vegna þessa, sem ég hef nú tekið fram, ætti að vera hægt að vona að þetta frv. fái vinsamlega meðferð í hv. d., sem nú er komið hingað til 2. umr.

Það voru samgmn. beggja d., sem höfðu þetta mál til meðferðar, þ. e. samvinnun. samgöngumála, sem hefur haft þetta frv. með höndum, og það hefur orðið til þess, að betra yfirlit hefur fengizt, og eru því góðar horfur til samkomulags um alla meðferð málsins. Ég skal taka það fram strax, að af hálfu samgmn. þessarar d., sem hefur skrifað hér örstutt nál., af því að hún taldi ekki frekara álits þurfa við, af því að greinilegar skýringar eru prentaðar með frv., og frv. liggur nú fyrir óbreytt fró, því sem hv. Nd. gekk frá því og sendi hingað.

Ég vænti þess vegna, að engu verði bætt við þetta frv. hér í hv. d., því að ef steinn færi að falla úr skriðunni, mundi það leiða til þess, að fleiri færu á stað, sem yrði helzt til ógagns.

Það eru hér tvö meginatriði, sem ég tel að horfi mjög verulega til réttarbóta og öryggis í vegamálum landsins og eru nýmæli í þessu frv. Annað er það, að mörg héruð fá óskir sínar uppfylltar í því efni að koma nýjum vegaköflum í þjóðvegatölu, og hefur verið nokkuð langt gengið í þeim efnum, þó að auðvitað sé, að þar hefur ekki öllu verið fullnægt, sem óskir hafa komið fram um. Vegamálastjóri hefur beitt sér fyrir þessu, og má segja, að stórt spor sé þarna stigið, því að eins og frv. ber með sér, þá eru það allmargir vegir, sem bætt er inn í þjóðvegakerfið með þessu frv.

Það er ætlunin, að þetta frv. skoðist sem heildarendurskoðun á vegalöggjöfinni og að þær breyt., sem settar eru í þetta frv., verði vegal., ef það verður samþ., í staðinn fyrir hina eldri löggjöf. Þskj., sem liggja fyrir, eru tvö, þskj. 330, og svo nokkrar brtt. á 2. gr. l., sem prentaðar eru á þskj. 480, en þær komu fram við síðustu umr. í hv. Nd., og er þar um nýja vegi að ræða, sem á að stefna að með frv. Að öðru leyti er frv. óbreytt, eins og það er á þskj. 330 og er því eins og gengið var frá því. Það er aðeins upptalning 2. gr., sem breytist og prentuð er á sérstöku þskj., sem kemur í staðinn fyrir 2, gr. upphaflega frv.

Að vera að telja upp þessa nýju þjóðvegi væri nú aðeins til þess að tefja tímann, en það er óþarft. Það er hver sínum hnútum kunnugastur, og skjöl þau og grg., sem liggja fyrir, segja til vegar. En þarna er um mikla aukningu þjóðvega að ræða.

Þá er það hitt atriðið, sem ég tel skipta allmiklu máli, það er hvað frv. rýmkar myndarlega til um aðstöðu til handa þjóðvegum, getur maður sagt. Því að það er öllum kunnugt, að vegabótaþörf, sem sýslurnar hafa átt að standa straum af, hefur verið harla mikil og tekjuliðirnir fátæklegir heima fyrir til þess að leggja slíkar fjárhæðir fram. Það er víst að vegamálastjórn og vegamálastjóri hafa skilið þetta til hlítar. Og þó að fyrir nokkru hafi verið rýmkað um þetta með fjárframlögum úr ríkissjóði, þar sem sýsluvegasjóðirnir eru komnir, þá er einmitt séð fyrir þessari þörf í þessu frv. Og er þess að geta, sem er aðalatriðið, að þar sem hámark framlags úr ríkissjóði var helmingur kostnaðar, þá er það nú til nýrra vega 3/5, og til viðhalds þeirra er gert ráð fyrir hálfu framlagi gegn hálfu annars staðar frá.

Það sézt hér glöggt, að hér er um ríflega aðstoð að ræða og framrétta hönd ríkisvaldsins, sem stjórnað er af skilningi fyrir þörf héraðanna, og ef þetta mál verður að l., sem ég efa ekki, verður þetta þakksamlega þegið.

Svo eru hér ýmsar smáar breyt., sem enn fremur koma til greina hér og í raun og veru er óþarft að vera að telja upp. Ég vil aðeins minnast á það, að þar sem fjárveitingar ríkisvaldsins eru nú þetta miklar, þá er vegamálastjóra veitt heimild til þess að leggja samþ. sitt á um upptöku nýrra þjóðvega. Þetta virðist ekki nema eðlilegt og sjálfsagt í raun og veru til þess að tryggja, að samræmis sé gætt og vel að öllu farið, og þetta á að vera til tryggingar, en ekki til þess að veikja þessa góðu aðstöðu til framgangs þeirra mála. Og það er líka í fleiri atriðum, sem slíkt samþykki kemur til greina, og ég þykist vita, að það sé samkomulagsatriði milli vegamálastjórnar og vegamálastjóra, þó að ég hafi ekki vissu fyrir því, en mér þykir líklegt, að það þyki hentugra að hafa þetta svo.

Þá er líka að geta þess, að það, sem veitt er til sýsluvega til frambúðar, þá verður þar að vísa til þess, sem veitt er af fjárl. hverju sinni, og er það ekki nema réttlátt, að svo sé og gefur það aðhald og betra yfirlit en ef svo væri ekki. Þá er líka þess að geta, að sveitirnar og sýslufélögin grípa inn í þetta sama og framlag þeirra til þess að standa straum af sínum bróðurparti um fjárframlög til veganna. Þá hefur persónugjaldið verið svo hlægilega lágt, ef það er miðað við gildi peninga nú, og hefur þetta verið hækkað þannig, að til sýsluvega er gert ráð fyrir, að það verði sem svarar einu dagsverki, sem kæmi á hvern karlmann frá 20–60 ára. Þá hefur einnig verið gert ráð fyrir, að karlmenn 20–60 ára greiði í hreppsvegasjóð 20 kr., en þó er hreppsnefnd heimilt að ákveða, að fengnu samþykki sýslunefndar, að það skuli vera allt að einu dagsverki fyrir hvern. Það sýnist ekki nema smávægilegt og sjálfsagt að hjálpa héruðunum á þennan hátt, að þeir, sem starfhæfir eru, geri eitthvað til þess að létta undir með þessum þýðingarmiklu framkvæmdum.

Þá er hér einnig um það að ræða í þessu frv., sem ekki er nema sjálfsagt, að fyrir jarðrask og annað þar sem um vegagerð er að ræða, þá skal ríkissjóður greiða fyrir þær bætur eftir nánari reglum, sem settar verða þar um.

Það mætti náttúrlega gera grein fyrir ýmsu fleiru, sem til bóta horfir, en ég hef hér ekki stiklað nema á því stærsta, sem ég tel, að mestu máli skipti.

Af hálfu vegamálastjórnarinnar hefur með þessu frv. verið sýndur áhugi og skilningur á þeirri knýjandi þörf, sem er fyrir bættar samgöngur hér á landi. Og frá mínu sjónarmiði og ég veit margra annarra er það svo, að ef sveitir landsins eiga ekki að falla í auðn, þá er það eitt fyrsta atriðið, sem þarf að tryggja, að vegakerfi og samgöngur landsins sé sem fullkomnast. Við vitum, hvað samgönguleysið hér á landi hefur oft reynzt okkur erfitt og þungt í skauti, og það eru vegirnir, sem fyrst og fremst geta dregið úr þeirri einangrun, sem við þekkjum, Íslendingar. En til þess að íslenzkt sveitalíf megi blómgast og Íslendingar eigi ekki allir að verða borgarbúar, þá þurfa allir að skilja það, að vegakerfi landsins þarf að komast í sem fullkomnast horf.

Ég skal þá ljúka máli mínu með þeirri ósk, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, nái samþykki hv. d. og verði vísað síðan til 3. umr.

Ég treysti því, að nefndarstörfum megi verða lokið, þ. e. a. s. að það komi ekki eftir þetta neitt nýtt fram, í það minnsta ekki neitt verulegt, sem gæfi ástæðu til frekari umr., og allra sízt, að það gæti valdið deilu.