11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

147. mál, vegalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér út af brtt. á þskj. 570 við lið 9 að taka það fram, að ég bar brtt. fram um þetta efni á öndverðu þingi, við 1. gr. frv., c-liðinn, en er ég ræddi við oddvitann í Tálknafirði um þetta, þá gaf hann í skyn, að það mundi duga að komast að Sveinseyri, og því lagði hann áherzlu á, að veginum yrði lokið að Sveinseyri, og er brtt. þessi ekki eftir minni ósk eða sveitarfélags Tálknafjarðar, en ég þakka hv. þm. N-M. góða hjálp.

Um brtt. þm. N-Þ. er það að segja, að mér er nú ekki kunnugt um, að mikil iðjuver eða mikil útgerð sé í Mjóafirði, og er ég nú hræddur um, að ýmsum stöðum lægi meira á að komast í vegasamband, og væri t. d. meiri ástæða til þess að tengja Raufarhöfn í akvegasamband. Hv. þm. sagði, að þetta væri aðeins leiðrétting. Þetta er ekki rétt. Hér er lagt til að taka inn stóran vegarkafla. Þá vil ég svara hv. 2. þm. Árn. að nokkru. Hann sagðist hafa lagt til, að veittar yrðu 250 þús. kr. til Hvalfjarðarvegar og 60 þús. kr. til Akranesvegar. Þetta er allt sett undir Akrafjallsveg, og er hér því ekki um neina sundurliðun að ræða. Hins vegar leggur þm. til, að veittar séu 300 þús. kr. til vegar, sem þegar er búið að veita til á síðasta ári 500 þúsund kr. Þetta er vegurinn um kjördæmi hv. þm. Fyrst er beðið um vegi fyrir tveggja tonna flutning, þá 6 og svo fyrir 15 tonna, og um þetta er beðið á sama tíma og ekki er hægt að aka hjólbörum á milli bæja í öðrum héruðum. Íbúar Sunnlendingafjórðungs eiga ekki alltaf að hafa forgang fyrir vegum. Það eru önnur héruð, sem liggur meira á, þar sem svo er ástatt, að íbúarnir hungra vegna þess, að ekki er fær vegur til þess að flytja mjólkina á. Mér þykir rétt, að það komi fram, að það séu fleiri en Sunnlendingar, sem þurfa á samgöngum að halda. Ég legg svo til, að ekki verði gerðar breyt. á frv., þar sem nú er mjög liðið á þingtímann.