11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

147. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er einstök aðferð, sem hér er við höfð. Frsm. byrjar að ræða mínar till., áður en ég fæ að mæla fyrir þeim, og þó kvaddi ég mér hljóðs þegar í fundarbyrjun. Þetta brýtur í bága við allar venjur og siði í þinginu. (Forseti (ÞÞ) : Flm. hafði ekki beðið um orðið. Forseta var a. m. k. ekki tilkynnt um það. Og ef hv. þm. heldur sér ekki við efnið, verður tekið af honum orðið.) Ég sný ekki til baka með það, að þetta er einstakt fyrirbrigði hér að gefa ekki orðið af forseta í þeirri röð, sem menn biðja um það. Og svo lýsir hér yfir maður, sem er form. n., að hann sé á móti öllum brtt. af ótta við, að málið verði fellt í Nd. En ég veit, að hann eða aðrir, sem hafa lýst sig á móti till., hafa ekki lesið þær yfir og ekki spurt vegamálastjóra um þær. Það sést bezt á því, að hv. þm. N-Þ. talaði um, að brtt., sem hann er með, sé leiðrétting, því hafi verið gleymt í Nd. að láta veginn enda á Brekku. En þessi vegur var tekinn í vegal. fyrir 2 áratugum eða meir og síðan hefur ekki verið hróflað við honum. Hér var ekki um neina gleymsku að ræða af Nd. En ef það er leiðrétting að lengja þjóðveg, sem fyrir er, um 18 km., þá er flest orðið leiðrétting. (BH: Um 18 km. Hvaða andskotans vitleysa.) Nú skal ég gera grein fyrir mínum brtt. Þegar ég er búinn að því, þá bið ég hv. form. n. að tala um þær og segja mér, hvað sé að þeim. 1. brtt. mín er við A. 32. Í stað orðanna „að Hábæ í Þykkvabæ“ komi: um Miðkot að Unuhól í Þykkvabæ. Hér er um að ræða að lengja þjóðveginn, sem fyrir er, og láta hann enda í Unuhól í Þykkvabæ. Það mun vera í kringum 1300 m, sem hér þarf að lengja veginn, og með því að lengja hann um þetta, þá kemst hann í samband við 14 nýja bæi. Vill nokkur segja mér, hvar á landinu er hægt að lengja þjóðveg um ekki lengri spotta en góðan kílómetra og komi þó eins mörgum mönnum að gagni og þarna. Þetta er ekki leiðrétting, heldur lenging á veg, sem fyrir er. 2. brtt. skal ég tala um síðar. 3. er leiðrétting. Ég legg til, að í stað nafnsins „Reykholtsdalsvegi“ komi: á Borgarfjarðarbraut í Reykholtsdal. Þótt ég leiti í öllum lagafrv., þá finn ég hvergi Reykholtsdalsveg, því að hann er bara partur af Borgarfjarðarbrautinni. Það er engin mynd á því að vera að festa í l. nöfn á vegum, sem alls ekki er þeirra rétta heiti, og þetta nafn er hvergi til í l. Í l. á að gefa hverju og einu sitt rétta heiti. Það er með þetta eins og mannslíkamann. Hann stendur saman af mörgum líkamspörtum, sem svo er gefið sérstakt nafn, og þegar maður vitnar til hans á að nota hans aðalnafn og rétta nafn, en ekki nafn einhvers partsins. 4. brtt. er við B. 21. Liðurinn orðist svo: Hvítársíðuvegur: Af Kleifavegi inn Hvítársíðu að Fljótstungu. 5. brtt. er nýr liður aftan við 4. brtt. Liðurinn orðist svo: Hálsasveitarvegur: Frá Hvítársíðuvegi nálægt Bjarnastöðum yfir Hvítá og á Borgarfjarðarbraut nálægt Reykholti. Ég lengi þá þennan veg um 14–16 km og set alla bæina í Hvítársíðunni í samband við hann. Þeir þurfa allir að flytja mjólk í kaupstað daglega og þurfa á vegarsambandi að halda. Þá er það 6. brtt. Það er ekki annað en leiðrétting. Liðinn skal orða svo: Kaldrananesvegur: Af Reykjarfjarðarvegi í Bjarnarfirði að Kaldrananesi. Það er ekki rétt að skíra þennan veg eftir héraðinu, sem hann liggur um, heldur er réttnefni hans Reykjarfjarðarvegur, en Kaldrananesvegur liggur af honum í Bjarnarfirði og að Kaldrananesi. 7. brtt. er aftur á móti viðbót við veg, sem fyrir er. Í stað orðanna: „að Árnesi“ komi: um Árnes að Eyri í Ingólfsfirði. Reykjarfjarðarvegur er látinn enda í Árnesi. En 4–5 km frá Árnesi er Eyri í Ingólfsfirði. Þar er nú að rísa upp þorp og síldarverksmiðja, svo að þörf er að lengja veginn þangað. 8. brtt. er um, að í stað orðanna „að Gemlufalli við Dýrafjörð“ komi: að ferjustað við Dýrafjörð undan Gemlufalli. Ég hef farið þessa leið, sem hér er um að ræða, og er hún um kortersgangur. Það er frá bænum niður að sjónum. Það er ætlunin að ferja komi þarna yfir Dýrafjörð, og mun tekin fjárveiting til hennar í fjárlögin, svo að það nær ekki nokkurri átt að láta veginn enda heima á bænum í stað þess að leggja hann alveg niður að sjónum. Þetta er eiginlega leiðrétting, en þó líka viðbót við þjóðveg. Þegar ég sagði vegamálastjóra frá þessu, sagði hann: Við látum hann fara niður að sjónum. En hvers vegna á þá ekki að setja það inn í l., að það skuli leggja þennan spotta? Mér finnst það bara sjálfsagður hlutur. 9. brtt. er um, að vegurinn komi um Sveinseyri að Stóra-Laugardal. Þetta er lenging til þess gerð, að vegurinn komist lengra inn í sveitina. Mér finnst þessi brtt. eigi rétt á sér. 10. brtt. er ef til vill lenging og ef til vill ekki lenging. Nú stendur í l., að vegurinn skuli liggja yfir væntanlega brú á Vatnsdalsá. Brúarstæðið er óákveðið. Það hefur ekki verið mælt fyrir því enn þá. Ég legg til, að vegurinn liggi um Ásbrekku og yfir væntanlega brú á Vatnsdalsá. Ásbrekka er endastöð allra rútubíla, og þangað koma allir. Ég vil slá því föstu, að vegurinn komi þangað. Nú má vel vera, að brúin verði byggð fyrir innan Ásbrekku, en ég vil samt láta taka þetta fram í l., að vegurinn skuli lagður þangað, svo að hann verði þar, þótt svo fari, að brúin verði byggð utar. Í 11. brtt. legg ég til, að vegurinn verði lagður „um Goðadali“ í stað: Tungusveit og yfir brú á Héraðsvötnum. Ég vil taka það fram, að hann skuli liggja fram í Goðdali. Goðdalir eru nokkurs konar miðstöð fyrir dalina fram frá, og þangað vil ég láta veginn ná. Það kann auðvitað vel að vera, að hann nái þangað, því að enginn veit enn, hvar brúin verður byggð yfir Héraðsvötn. En í l. stendur nú : um Tungusveit og yfir brú á Héraðsvötnum. Hér er því, eins og í till. næstu á undan, alls ekki víst, að um nokkra lengingu á veginum sé að ræða. 12. brtt. er lenging. Ég legg til, að í stað „að Ríp“ komi : um Ríp að Eyhildarholti. Þetta er viðbót um 6 km. Í Eyhildarholti, sem er fremsti bær í Hegranesi, eru lögferjur bæði vestur og austur yfir vötnin. Og ég vil láta veginn ná að ferjunum, en ekki slíta hann þarna í sundur. Ég vil ekki láta veginn enda við Ríp. 13. brtt. er leiðrétting. Ég legg til að í stað „Ólafsfjarðar“ komi: Ólafsfjarðarkaupstaðar. Mér finnst ekki ástæða til að láta veginn enda í firðinum, en þannig mætti skilja það nú, heldur liggja út í kaupstaðinn. Þá er 14. brtt. Í stað orðanna „að Sandvík í Bárðardal“ komi : um Sandvík að Bjarnarstöðum. Ég vil láta veginn ná að Bjarnarstöðum. Þetta er lenging um 12–17 km. 15. brtt. er um að kalla Lagarfoss sínu rétta nafni. Hann hefur verið skírður Lagarfoss, en ekki Foss, eins og þarna stendur. 16. brtt. er einnig leiðrétting. Í stað orðanna „og Fagradalsbraut í Reyðarfirði“ komi: á Fagradalsbraut innan við Búðareyri.

Það er þá ljóst, að þessar brtt. mínar eru yfirleitt ekkert annað en leiðréttingar og smærri lengingar, t. d. eins og vegurinn frá Gemlufalli og niður að sjónum. En þá kem ég líka að stærstu brtt. eða 2. brtt. Ég skal fyrst benda á, að fram kom þáltill. um þetta mál á þinginu, sem var fyrir árið 1945. Hún kom fram 17. apríl 1946 á þskj. 860. Till. lá nú ekki meira en það á, að þótt fyrsti flm. hennar væri maður, sem ýtir á eftir hlutunum, hv. þm. Borgf., þegar honum sýnist svo, að hún kom ekki á dagskrá fyrr en 27. apríl og dagaði svo uppi, þótt fundir væru eftir það haldnir í Sþ. Hefði hún því getað komizt lengra, ef menn hefðu kært sig um. Þinginu var slitið eftir 2 daga, 29 apríl, svo að till. komst ekki í gegnum þingið. Í grg., sem þá fylgdi till., var sagt, að áætlað væri, að lendingarbætur kostuðu 620 þús. og vegurinn fyrir norðan fjörðinn 140 þús. og fyrir sunnan fjörðinn 160 þús., eða samt. 920 þús. kr. Sagt var í grg., að áætlunin væri, mjög lausleg og gæti breytzt við nánari athugun. Á þessum forsendum hafði fjvn. ekki treyst sér til að gera neitt í málinu, enda þingi slitið 2 dögum eftir, að till. kom til hennar. Það kann að hafa verið með vilja gert að láta málið koma svona seint fram, til þess að það yrði sem minnst rannsakað, því að þegar farið var að rannsaka málið nánar, þá komst upp, að lendingarbæturnar mundu kosta um 1300 þús. Og nú er komið upp í 1 millj. og 450 þús. Hins vegar er þessi áætlun reiknuð með vísitölunni 290. Það má gera ráð fyrir, að vinna í þessu sé alltaf 1100 þús. kr., og er hún reiknuð með vísitölu 290, en hún er nú orðin 310. Vitamálastjóri segir í bréfi, er hann skrifaði í haust, að hann hafi gert áætlun um lendingarbætur fyrir norðan fjörðinn upp á kr. 400 þús. Síðan hefur grunnkaup hækkað á Akranesi, svo að þetta hlýtur að verða dýrara en þarna er áætlað. En ekki er hægt að segja, hvað það muni nema miklu. Fyrir norðan fjörðinn er nú búið að vinna fyrir 130 þús. kr. Það er búið að gera þarna allmikið verk. Vegamálastjóri, sem séð hefur um þetta, segir, að búið muni að vinna 1/6 hluta af öllu verkinu, en menn, sem hafa unnið þar, telja, að lokið sé við 1/8. En hvor talan sem væri nú rétt, þá er það víst, að verkið allt kostar miklu meira en 400 þús., þar sem það, sem búið er, hefur kostað 130 þús. Ef 1/8 hluti er rétt, þá mun verkið fara upp undir 1 millj., en sé það 1/6, þá væri það ekki nema um 700 þús. Á þessu má dálítið átta sig á, hvað þetta muni kosta, en það verður aldrei undir 2 millj. kr. Vilji maður halda sig við gömlu vísitöluna, þá kemst maður upp í 1800–1900 þús. kr. Hvernig sem málið er skoðað, þá er það víst, að kostnaðurinn mun fara upp undir 2 millj. kr. eða meira, og það kæmi mér ekki á óvart, þótt hann færi langt upp fyrir það. Þetta er nú sú brtt., sem er langveigamest og langhættast við, að um yrði deilt í Nd., ef hún yrði samþ. hér. Flestar þessar brtt. eru gersamlega saklausar, og það þarf ekki nokkur að óttast, að Nd. fari að deila um það t. d., hvort vegurinn sé látinn enda við Gemlufall, í stað þess að lengja hann að sjónum og ferjustaðnum, eða hvort skuli kalla vegi sínum réttu nöfnum eða ekki. Það er engin ástæða til að ætla annað en Nd. telji og viðurkenni, að slíkt er réttmætt. En þar að auki er það í þessu máli, að það er eiginlega skammarlegt gagnvart sjálfum sér að þora ekki að gera það, sem rétt er, vegna ótta við það, að önnur d. líti öðruvísi á málið og það geti tafið fyrir framgangi þess. Það er enginn hlutur, sem fær mig til að gera annað en það, sem rétt er. Það verður að hafa það, hvað Nd. gerir. Ég lít á mig sem minni mann, ef ég geri annað en það, sem ég álít satt og rétt í hverju máli. Ég tel því það sjónarmið fjarri öllu lagi að þora ekki að breyta frv. af ótta við það, sem Nd. mundi gera. Ég hef nú lýst þessum brtt., eins og vani er, þegar brtt. koma fram. Svo er það venja, að aðrir finni að þeim og þeim rökum, sem fram hafa verið borin. En nú hefur það skeð, að aðrir hafa gagnrýnt brtt., áður en ég fékk að hafa framsögu fyrir þeim. Það er alveg ný venja. Það má vel vera, að það sé eins gott, en ég sé bara ekki búinn að venja mig við það. En ég kann ekki við þá aðferð enn, sem komið er. Hins vegar kunna forseti og frsm. að álíta það vera til bóta að láta ræða brtt. og gagnrýna, áður en talað er fyrir þeim. En eins og ég hef sagt, eru flestar þessar brtt. svo sjálfsagðar, að óskiljanlegt er, að nokkur maður skuli láta sér til hugar koma að fella þær. T. d. er það furðulegt, að nokkur skuli heldur vilja kalla veginn um Reykholtsdal Reykholtsdalsveg í staðinn fyrir Borgarfjarðarbraut í Reykholtsdal, en það er hans rétta og eina nafn. Þetta væri það sama og ég væri að tala t. d. við Hannibal og kallaði hann bara Bala eða eitthvað annað, sem mér dytti í hug. Hver vissi við hvern ég ætti? Það gæti kannske einhver látið sér það til hugar koma, sem hefði þekkt hann, þegar hann var strákur. En hann hefur aldrei verið skírður þessu nafni og heitir það ekki. Mér er það alveg óskiljanlegt, hvað kemur mönnum til að vilja kalla hlutina öðrum nöfnum en þeir heita. Hitt er svo aftur á móti skiljanlegt, ef menn eru mótfallnir því að lengja vegina. Í sumum af brtt. mínum er lagt til að lengja vegi og koma mörgum bæjum í vegasamband, og ég er ekkert hissa, þó að menn séu því mótfallnir, en hitt er mér alveg ráðgáta, þegar menn berjast á móti því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Svo hélt hv. 2. þm. Árn. því fram, að ég væri að koma fram með nafnbreytingar. Það er hreinasta fjarstæða. Það er nefndin, sem er með nafnbreytingar. Ég er bara að færa nöfnin á vegunum í það horf sem verið hefur, kalla vegina þeim nöfnum, sem þeir hafa verið skírðir í lögunum sjálfum. Ég man tvívegis eftir því, að svipaðar vegalagabreytingar og nú, um að veita fé til nýrra þjóðvega, hafa verið bornar fram. Í bæði skiptin voru þær till. strádrepnar og aldrei veitt fé til nýrra þjóðvega sama ár og þeir voru teknir í þjóðvegatölu. Mér skildist á hv. 2. þm. Árn. að hér ætti að taka upp nýja þingvenju og veita fé í slíka vegi. Ég skal ekki dæma um réttmæti þeirrar venju að veita ekki framlög til nýrra þjóðvega sama ár og þeir koma í vegalög, og það má að vissu leyti segja, að venjan hafi verið brotin með fjárveitingu til Akravegar, en um það má þó deila, hvort þar hafi verið veitt til nýs vegar, því að þar skeði ekki annað en að vegurinn var gerður miklu breiðari og fullkomnari en venjulegt er. Annars hefði ég helzt kosið að halda mig við venjuna og veita ekki fé til nýrra þjóðvega, hvort sem þeir hafa áður verið hreppa- eða sýsluvegir. Inn í þessa umr. hafa blandazt framlög ríkisins til vegamála. Þar tek ég undir það, sem hv. form. fjvn. sagði, og ég tel alveg fjarstætt að hugsa sér, að veitt sé jafnt í hverja sýslu ár frá ári og jafnmikið í allar sýslur. Nú eru t. d. tvær sýslur, sem hafa langfullkomnast vegakerfi. Í annarri er aðeins lítill spotti, sem ekki er akfær, en í hinni eru allir vegir akfærir. Að láta sig svo dreyma um, að þessar sýslur fái jafnmikið framlag og þær sýslur, sem hafa fleiri km óvegalagða, það er hrein fjarstæða. Ég held því, að hv. þm. veitti ekki af að kynna sér ástandið í vegamálunum, og ég held, að ríkisstj. ætti að láta gera klissju af því línuriti, sem vegamálastjóri hefur, yfir þjóðvegi og sýsluvegi, svo að hv. þm. tali ekki af eins mikilli vanþekkingu um þessi mál og komið hefur í ljós. Það gæti opnað augu manna fyrir því, að ekki er verjandi að ætla að veita jafnmikið fé í sýslur, sem hafa nær alla eða alla vegi akfæra, og í þær, sem hafa marga km óakfæra. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Brtt. mínar eru sumpart til lengingar á vegum. Aðeins ein er stórvægileg og gæti valdið deilum í hv. Nd., aðrar ekki.