04.11.1946
Efri deild: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. fari til menntmn. að lokinni þessari umr., og vildi því strax við þessa 1. umr. benda á nokkur atriði, ef n. vildi taka þau til athugunar, þegar hún fjallar um málið.

Skv. 2. gr, er gert ráð fyrir, að biskup og húsameistari ríkisins fjalli um þessi mál. Ég teldi eðlilegra, að fyrir annan hvorn þessara aðila kæmi skipulagsstjóri.

Skv. 5. gr. er gert ráð fyrir að byggja að minnsta kosti 4 prestsseturshús árlega. Eftir núgildandi verðlagi mundu þau kosta að minnsta kosti 14 hundruð þús., ef gert er ráð fyrir sama kostnaði og við læknabústaði, og vildi ég, að n. gerði sér ljóst, hvert slíkt stefnir, enda ber fjárlfrv. þess ljósan vott, að svipaðar till. koma víðar að. En ég vil leiða athygli að því, hversu gífurlega bagga slíkt bindur ríkissjóði.

Hvað snertir 7. gr., tel ég, að viðkomandi prestur ætti að bera allan kostnað af þeim breyt., sem hann óskar eftir, en hins vegar teldi ég hyggilegast, að slíkar breyt. væru ekki heimilar nema undir vissum kringumstæðum, vegna þess að þær geta haft í för með sér erfiðleika, þegar prestaskipti verða á staðnum.

Þá tel ég miður heppilega þá kvöð, sem lögð er á í 9. gr. um, að bæjar- eða sveitarfélag leggi til lóðir. Slíkt getur haft í för með sér svo óhóflegan kostnað fyrir viðkomandi bæjar- eða sveitarfélag. — Þá er ég á móti 12. gr., sem fjallar um viðhald hússins, og tel heppilegra að láta viðkomandi prest gjalda fulla leigu, en af henni verði svo viðhald hússins greitt. Hitt fyrirkomulagið setur það í hættu, að húsinu verði viðhaldið, sem síðar getur valdið stórtjóni, sem að sjálfsögðu kæmi niður á ríkissjóði.

Í 16, gr. er talað um, að ríkið leggi kvaðalaust fram 3/5 kostnaðar. Þessu er ég algerlega á móti. Ég álít heppilegast, þegar komið er inn á þá braut, að ríkið byggi yfir opinbera starfsmenn, að ríkið eigi að öllu umrædd hús, en í móti komi alveg fullkomin húsaleiga. Það er að mörgu leyti eðlilegt, að ríkið verði að byggja þessi hús, vegna þess að þessir starfsmenn eru oft á tíðum ekki nema stuttan tíma á sama stað og því ekki eðlilegt, að þeir geti lagt í byggingarkostnað, en hins vegar á að vera vorkunnarlaust að láta þessa menn, sem nú eru mjög sómasamlega launaðir, gjalda fulla húsaleigu. Þessi mál horfa nefnilega allt öðruvísi við nú en áður, þegar húsnæðið raunverulega var nokkur hluti launanna. Í 2. kafla 23. gr., um endurgreiðslu samkv. 22. gr., þá skil ég ekki, hvernig það á að bera sig, að ekki sé nema 1% afborgun. Eftir því ættu húsin að endast í 100 ár, en það þykir gott, ef slík hús endast í 20–25 ár, og yrði því hér um beinan styrk úr ríkissjóði að ræða, og ég segi ekki nema það, að það yrði eitthvað sagt, ef bændur almennt færu fram á slíkt.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram nú við 1. umr., ef n. vildi taka það til íhugunar við meðferð málsins. Mér er það ljóst, að víða þarf að byggja, en ég tel enga þörf á, að það verði gert í neinu styrkjaformi ofan á þau háu laun, sem þessir starfsmenn ríkisins hafa nú eftir launalögunum.