06.11.1946
Efri deild: 10. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Í þessu máli eru tvö atriði, sem ég vildi benda á, annað til n. og hitt til fjmrh. Það kom fram bæði hjá þm. Barð. og hæstv. kirkjumálarh., að prestsbústaðir væru dýrir, en ekki kom þeim saman um, hvað dýrir þeir væru. Ég get nefnt, að á Austurlandi voru byggð tvö hús, svo jafnstór, að ekki munaði nema nokkrum sentimetrum, hvað annað var lengra en hitt. Annað var prestsbústaður og kostaði 115 þús. kr., en hitt var byggt á Egilsstöðum — dýralæknisbústaður — og kostaði 300 þús. kr. Nú vil ég, spyrja fjmrh., í hverju þessi munur geti legið. Ég geri ráð fyrir, að hann láti rannsaka það. Annað húsið er næstum því þrisvar sinnum dýrara en hitt, og eru þó bæði byggð undir eftirliti húsameistara ríkisins. Ég vil láta ríkisstj. athuga þetta, ef hún mætti eitthvað af því læra. Einhverjar ástæður hljóta að liggja til þess, að tvö jafnstór hús séu svo misjafnlega dýr, ekki sízt þegar þau eru bæði byggð á sömu stöðum. Fleiri dæmi mætti vafalaust nefna, sem hnigu í sömu átt. Það verður því að ganga úr skugga um, hvað þessum mismun veldur, og bendi ég fjmrh. á að athuga þetta og læra af því. Umræðurnar, sem áður hafa orðið um þetta mál, gáfu mér tilefni til að benda fjmrh. á þetta. En n. vil ég benda á, að samkv. launalögunum eru prestunum ætlaðar heimatekjur, svo sem leiga jarðar og húsa og ýmis önnur hlunnindi. Ætlazt var til, að hlunnindi þessi yrðu metin á 10 ára fresti, en það hefur gersamlega verið vanrækt að endurnýja þetta mat, og búa prestarnir nú við tekjur samkvæmt mati frá 1920. Síðan koma launalögin og telja þetta til frádráttar í stað tekna áður, sem sé jarðnæðið og húsnæðið. Hinn hluti heimateknanna féll alveg niður og veit enginn, hvernig meta skuli. Og nú koma þessi lög, sem gera ráð fyrir föstu gjaldi fyrir húsnæði, sem dragist frá launum prestsins, en það vantar alveg ákvæði um jarðnæði og aðrar heimatekjur. Úr því að hér er slegið föstu um það, hvernig reikna beri húsnæðið, ætti einnig að koma fram, hvernig meta eigi jarðnæði og aðrar heimatekjur, svo að einhver geti sagt um, hvers virði þetta er. Þetta var áður metið upp í kaup prestsins, en nú hirðir hann þessar aukatekjur, sem enginn getur sagt um, hversu mikils virði eru.