06.11.1946
Efri deild: 10. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera margorður í svari til hv. þm. Barð. Ég heyrði aðeins niðurlag ræðu hans. Hv. þm. sagði, að ég væri eitthvað sérstaklega viðkvæmur í þessu máli og að ég hefði hér í frammi ádeilur og útúrsnúninga. Ég vil nú helzt ekki viðurkenna neitt af þessum ummælum þessa hv. þm., og ég er ekki viðkvæmari fyrir þessu máli en öðrum málum, sem heyra undir mig og ráðuneyti mitt. Mér finnst hart, ef þessi hv. þm. ber það út, sem er og form. fjvn., að á Egilsstöðum hafi verið byggður prestsbústaður fyrir 350 þús. kr., eða aðrar slíkar fjarstæður, sem hann virðist hafa, eftir hans fullyrðingum að dæma. Nú er mér ekki kunnugt um, að neinn prestsbústaður hafi verið byggður að Egilsstöðum, en þar mun aftur á móti hafa verið byggður læknisbústaður, sem hefur sjálfsagt orðið að uppfylla sérstakar kröfur sem slíkur, enda eru læknisbústaðir öðruvísi byggðir en prestsbústaðir og eru þar af leiðandi mun dýrari, en mér er þó kunnugt um, að enginn prestsbústaður hefur farið fram úr 180 þúsund kr. til þessa. Skakkar það því helming verðs miðað við útreikninga hv. þm. Barð. Þess vegna má gera ráð fyrir, að byggja megi 3 bústaði á ári miðað við 500–600 þús. kr. fjárveitingu. Ég tel því orð hv. þm. Barð. ekki réttmæt, né að ég hafi haft hér í frammi neina útúrsnúninga.

Þá minntist hv. þm. á það, að ég hefði verið forsvarsmaður launalaganna og að ég hefði haldið því fram, að þau mundu ekki valda ríkissjóði auknum útgjöldum. Það er rétt hjá þm., að ég var og er samþykkur þeim, en ég hef aldrei sagt, að þau gætu ekki haft einhverja útgjaldahækkun úr ríkissjóði í för með sér. Um hitt, að ég og ráðuneyti mitt væri að gefast upp við að reka ákveðna ríkisstofnun, þá tek ég það fram, að ég hef ekki gefizt upp í því máli, en hef hins vegar gert víðtækar ráðstafanir í því efni. Hv. þm. veit þetta og veit líka, að hér hefur ekki verið um neina uppgjöf að ræða og það hefur aldrei verið meiningin, og þarf ég ekki að fara um það frekari orðum. En ég bæti því við í sambandi við ummæli þessa hv. þm. um launalögin, að það er sannarlega miklu fleira en launalögin og mitt ráðuneyti, sem valdið hafa einhverjum hækkunum fram yfir það, sem áætlað var.

Hv. þm. sagði, að það væri verið að veita prestunum mikil hlunnindi fyrir lítil störf. Ég veit, að það er verið að veita prestunum hlunnindi. Ég færði rök að því í ræðu minni í gær, að þess þyrfti í því formi að fá þá til að starfa í því skipulagi kirkjumála, sem nú ríkir. Hitt er allt annað mál, ef aðskilja ætti ríki og kirkju, og kemur það þessu máli ekkert við. Það verður að fá menn til þess að sinna embættum þjóðkirkjunnar, en það verður ekki framkvæmt með þeim lögum, sem nú eru í gildi. Það er ekki hægt að praktisera lögin frá 1931 um hýsing prestssetra nema með því að þverbrjóta þau.

Ég deili ekki frekar við hv. þm. Barð. Hann sagði, að ég hefði ráðizt að sér, en það er mjög fjarri sanni. Hitt er ekki að lá mér, þótt ég ætlaðist til, að mitt sjónarmið kæmi fram fyrir nefndina.