11.12.1946
Efri deild: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Ég ætla ekki að segja margt um þetta mál og þá aðallega um meðferð málsins að gefnu tilefni.

Eins og hv. 3. landsk. tók fram, hefur það þannig. verið í n., að aðallega hafa 3 nm. unnið að málinu, og ég hef ekki orðið var við það fyrr en nú, að n. hafi klofnað. N. tók að sér öll að flytja þetta mál fyrir kirkjumráðh., og svo var því ekki vísað sérstaklega til n. aftur, heldur lýsti hún yfir, að hún mundi taka málið til athugunar milli umr., eins og hún hefur gert. Þeir fundir, sem n. hefur haldið, hafa alltaf verið boðaðir öllum nm., en það hafa engar tilkynningar komið um það frá þeim tveimur nm., sem hafa ekki tekið þátt í athugun málsins, að það bæri svo að skilja, að þeir hefðu klofið n. í þessu máli og hefðu aðra aðstöðu um það, og ég man ekki heldur eftir nema einu sinni, að það hafi komið frá þeim nein boð um forföll. Ég man, að hv. 2. þm. Arn. lét þess getið að því er einn fund snerti, að hann gæti ekki á honum verið. Ég verð að segja það, að ég hefði kunnað betur við, að hann sem nm. hefði gert þessar aths. sínar í n. en að koma fyrst fram með þær í deildinni.

Ég ætla nú ekki að ræða það, sem hér hefur fram komið um málið, því að ég álít, að sá maður, hv. 3. landsk., sem við þrír völdum til þess að fylgja þessum brtt. okkar úr hlaði, sé fullfær um að svara þeim aths., sem fram hafa komið viðvíkjandi brtt. og einstökum atriðum frv., og tel ég víst, að hann muni gera það, og skal ég ekki neitt taka af honum ómakið hvað það snertir, en af almennum aths. langar mig aðeins til að minnast á það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði.

Hv. þm. talaði hér alllangt mál um að þetta frv., sem hér liggur fyrir, væri ekki nógu gagngert, eins og hann orðaði það, og það hefði þurft að liggja fyrir miklu nákvæmari athugun en fyrir liggur, til þess að rétt væri að setja, að mér skildist, slíka löggjöf sem hér stendur til. Það kann vel að vera, að þurft hefði að fara fram meiri athugun á ýmsum hliðum þessa máls, en þó er á það að líta, að með þessu frv. er ekki verið að byrja á neinu nýju, því að á undanförnum árum hefur verið veitt talsvert fé úr ríkissjóði til bygginga prestssetra, og það eru til l. um, að þetta skuli gert, og ég held, að þau séu ekki á neinn hátt ýtarlegri en það frv., sem hér liggur fyrir.

Ég er hv. 2. þm. Árn. sammála um það, að áður en ráðizt er í að byggja ný prestsseturshús, þarf að fara fram athugun á því, hvort það eigi yfirleitt að hafa prestsseturshús á þeim stað, en þetta frv., eins og það liggur fyrir, gerir beinlínis ráð fyrir, að slík athugun fari fram, því að það er beint fyrirskipað samkv. frv. í fyrsta tölul. 1. gr., en það út af fyrir sig, að slík athugun fari fram, álít ég, að sé til mikilla bóta.

Þá vék hann að máli, sem er náttúrlega ákaflega þýðingarmikið atriði, og það er það, sem stundum hefur verið hreyft áður, hvort yfirleitt ætti að stefna að því, að sveitaprestar hefðu jarðir til búskapar ellegar ekki. Það hafa verið uppi raddir um, að prestar væru losaðir við búskap, það væru bara prestsseturshús í sveitunum, en ekki miðað við hin gömlu prestssetur og prestar ættu yfirleitt ekki að búa. Ég tel það nú víst, — eins og hann var að tala um, að orðið hefði að því er Arnarbæli snerti, að presturinn væri kominn í sveitaþorp, sem þar er, — að þar, sem þorp og kauptún eru í prestaköllunum, þá sé nú straumur tímans þannig, að prestssetrin lendi í kauptúnum og þorpum, og að það verði að sjálfsögðu að hafa í huga, þegar sú athugun fer fram, sem frv. gerir ráð fyrir. Nú er ég fyrir mitt leyti reiðubúinn að greiða atkvæði með því, að ef halda á uppi kirkju og kristindómi í landinu, þá þurfi marga presta í sveitunum, og það er mín ákveðna skoðun, að þeir eigi að eiga þess kost að hafa jarðir til umráða og ábúðar eins og verið hefur frá upphafi kristni í landinu. Það er ekki svo erfitt prestsstarfið, að því er talið er, að það sé ekki samrímanlegt því að stunda búskap. Ég álít hreint og beint það draga prestinn niður að vera eins konar húsmennskumaður, jafnvel þó að í sérstöku húsi sé, eða tómthúsmaður, ef hann er í sveit á annað borð, og fást ekki við búskap. Það er alveg rétt, að það eru erfiðleikar við búskapinn og fara vaxandi hin allra síðustu ár, alveg sérstaklega að því er það snertir að geta fengið fólk til að vinna við landbúnað, en mér sýnist nú, einkum eftir að hin nýju launal. voru sett, að prestar standi sízt verr að vígi um það en hver annar bóndi, og ef við hugsum yfirleitt til þess, að landbúnaður geti haldið áfram að þróast í landinu, þá álít ég, að þeir, sem eru prestar uppi í sveit, eigi að reka landbúnað eða a. m. k., að gengið sé út frá því, að þeir geri það og að séð sé um, að þeir geti það, þó að þeir ráðstafi þá sínum jörðum eða byggi þær og verði þá sjálfir í húsmennsku, ef þeim þykir það hentara fyrir sig. Og þrátt fyrir alla erfiðleika, sem að landbúnaðinum steðja nú og bændum, þá er það svo, að það eru allmargir prestar, sem búa myndarlegu búi. Svo er það t. d. í mínu héraði, a. m. k. um tvo presta þar. Það eru ekki orðnir margir prestar í mínu kjördæmi, en tveir þeirra búa stórbúi og búa mjög myndarlega, engu síður en aðrir myndarbændur. Þetta álít ég það langsamlega æskilegasta í sveit.

Það er náttúrlega líka út af fyrir sig rétt, sem hv. þm. Árn. var að tala um, að bættar samgöngur og aðrar breyttar aðstæður yllu því, að það þyrfti að fara fram athugun á prestaköllunum, athugun á því, hvort ekki mætti enn stækka prestaköllin. Ég býst við, að það sé alveg nákvæmlega í samræmi við 1. tölul. 1. gr., að sú athugun fari fram líka. Það er búið þegar að fækka prestum allmikið í landinu, en þar, sem ég þekki til, sé ég ekki, að þeim verði fækkað öllu meira, ef á annað borð á að halda uppi prestsþjónustu.

Hvað kirkjusókn og öðru slíku líður, þá er það misjafnt og hefur lengi verið, síðan það var úr l. tekið eða hætt að framfylgja þeim l. að sekta menn og refsa, ef þeir sóttu ekki kirkju, en ég hygg þó, að það sé algengt, að a. m. k. sumt af fólki meti mikils að geta komið til kirkju og hlustað á sinn prest. Svo er það þar, sem ég þekki til.

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, þá vil ég aðeins geta þess, að mér virðist, að embættismenn sumir í bæjum hafi einmitt bau fríðindi í húsnæði, sem prestum eru ætluð samkv. þessu frv., eða svipuð, t. d. skólastjórum. Það er ekki langt síðan hér var mál á ferðinni á Alþ. að sjá rektor menntaskólans fyrir bústað, og það munu vera fleiri embættismenn í kaupstöðum, sem hafa húsnæði með sínu embætti, gjalda að vísu húsaleigu eftir mati. Mér er ekki nákvæmlega kunnugt, hvernig það mat er, en ég hygg þó, að óvíða séu fullir vextir af öllum tilkostnaði við það húsnæði, sem þeir hafa.

Þó að ég búist við, að hv. 3. landsk. svari því, þá vil ég þó geta um það, að það mun hafa fallið niður eitt orð í brtt. við 5. gr. Það var alls ekki meiningin, að orðið „nægilega“ félli niður. Það var meining n., að ef fé er veitt til að byggja prestssetur á annað borð, þá sé það nægilegt fé eftir áætlun. Hins vegar vildi n. rýmka svo um, að ekki væri skylda að veita fé til fjögra prestsseturshúsa á ári, ef fé þætti ekki vera fyrir hendi til þess. Mundi líklega rétt að leiðrétta þetta við 3. umr.

Út af því, sem sagt var við 1. umr. um byggingarkostnaðinn, vil ég segja það, að jafnvel þótt tillit sé tekið til þess mikla byggingarkostnaðar, sem nú er, þá kalla ég illa á haldið, ef prestsseturshús þurfa að vera svona dýr, eins og ráð var fyrir gert við 1. umr. þessa má1s. Þá var því t. d. haldið fram, að 4 prestsseturshús á ári þýddi 1400 þús. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég veit raunar, að hér í Reykjavík er dýrt að byggja hús, og skal ekki segja, hvað prestsseturshús í Reykjavík kynni að kosta. En ég fullyrði, að prestsseturshús í sveitum þurfa ekki að kosta nándar nærri sem þessu nemur, hvað sem hægt kann að vera að koma því upp í þegar hið opinbera á í hlut, því að byggingar verða einatt miklu dýrari þegar hið opinbera á að koma þeim upp en ef einstaklingar eiga í hlut. Mér er kunnugt um það t. d., að nú á síðustu árum hafa bændur ýmsir byggt hús, sem væru alveg forsvaranleg prestsseturshús í alla staði og hafa ekki kostað nándar nærri eins mikið og hér er gert ráð fyrir. Ég kom í haust í eitt nýbyggt hús norður í Eyjafjarðarsýslu, sem ég hefði talið boðlegt hverjum presti, þar sem hann hefði haft nægilegt rúm fyrir sig og fjölskyldu sína og nauðsynlegt starfslið. Bóndinn sagði mér, að þó að hann reiknaði allan. kostnað, sína vinnu og síns fólks, færi húsið ekki yfir 120–140 þús. kr. En það er kannske öðruvísi unnið við slíkar byggingar í sveitum, þar sem bóndinn sjálfur vinnur með, heldur en gert er hér í Reykjavík.

Það sem sami þm. var að tala um þær upplýsingar, sem biskupsskrifstofan hefur gefið, er náttúrlega ekki þess að vænta, að nm. þessir þrír séu kunnugir um allt land og geti sagt um, hvort þessir upplýsingar eru réttar eða ekki. Þær upplýsingar, sem hv. 3. landsk. gaf hér, eru úr bréfi undirrituðu af biskupi sjálfum, sömdu á hans skrifstofu, og vitanlega verður að taka þær upplýsingar eins og þær liggja fyrir nú, hvað sem sömu aðilar kunna að hafa sagt fyrir nokkru síðan. Og það mun vera þannig, að þótt þetta frv. væri borið fram í fyrra og upplýsingar gefnar í grg. þess þá, þá munu þær upplýsingar ekki hafa verið með öllu nýjar, því að ætlunin var að bera þetta frv. fram fyrr, og held ég, að í því liggi þessi mismunur. Mér finnst því ekki ástæða til að rengja það, sem biskup segir nú um ástand prestsseturshúsa í landinu á þessum tíma, og álít forsvaranlegt að ganga út frá því, að þetta séu réttar upplýsingar.