11.12.1946
Efri deild: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki svara ýtarlega þessum aths., sem komið hafa frá hv. 3. landsk. og hv. form. menntmn., því að lítið hefur verið hrakið af því, sem ég sagði. Ég vil gera þá fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að taka málið af dagskrá í dag og fresta umr. til föstudags, svo að við gætum fengið tækifæri til þess að koma með brtt. við frv. við þessa umr. En ef forseti sér sér þetta ekki fært, þá vil ég spyrja hv. menntmn., hvort hún sjái sér ekki fært að taka brtt. sína aftur til 3. umr. Ég hefði heldur kosið, að umr. yrði frestað. Ég hef hugsað mér að koma með brtt. við 4. gr. frv. og e. t. v. fleiri gr., og að ég hef ekki komið með hana enn, er af þeirri ástæðu, að ég vildi fá málið rætt áður til þess að fá upplýsingar um það. Nú hef ég fengið þær upplýsingar, og þess vegna fer ég fram á þetta við hæstv. forseta, til þess að ég geti látið prenta brtt.