13.12.1946
Efri deild: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við 2. umr. boðaði ég, að ég mundi bera fram rökst. dagskrá við 3. umr. málsins. Vil ég því segja nokkur orð. Ég vildi benda á, að þetta frv. fjallar eingöngu um prestsseturshús, en gerði hins vegar ekki ráð fyrir, að prestssetrum væri fækkað. Enn fremur hefur verið talað um n., sem ég veit ekki að til sé, skipulagsnefnd prestssetra. Aftur á móti tel ég, að athuga þurfi, hvað marga presta þarf og hvort prestar eigi að prédika sunnudag eftir sunnudag hafandi kannske 100 sóknarbörn.

Það eru fleiri en prestarnir, sem búa í opinberum embættisbústöðum, en um þá gilda engar reglur, heldur er sitt á hvað. Það er sett á vald skattanefndanna að meta,, hvers virði bústaðurinn sé og draga svo þau hlunnindi, sem eru af bústaðnum, frá launum viðkomandi. Á þessu er svo misjafnt mat, að það hefur komizt í að vera fimm sinnum meira á einum staðnum en öðrum á þó mjög svipuðum bústöðum. Slíkt ástand er alveg óviðunandi og brýn nauðsyn að setja um þetta einhverjar ákveðnar reglur, svo að úr þessu, verði bætt. Þetta gildir ekki einungis um prestsbústaði, heldur alla opinbera bústaði, og get ég ekki séð neina ástæðu til að taka prestsbústaðina út úr. Sums staðar eiga embættismennirnir nokkurn hluta húsanna eða hafa fengið lán hjá hinu opinbera til þess að byggja. Einnig um slíkt þarf að setja fastar reglur. Í stuttu máli, ég tel nauðsynlegt að samræma ákvæði um bústaði fyrir alla opinbera starfsmenn, hvort sem þeir eru prestar, sýslumenn, læknar, skólastjórar eða kennarar, og setja um það föst lög eða reglur. Legg ég því fram eftirfarandi dagskrártillögu:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti svo fljótt sem auðið er semja og leggja fyrir Alþingi frv. til 1. um embættisbústaði handa þeim starfsmönnum ríkisins, sem því ber skylda til að sjá fyrir húsnæði, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Hæstv. ráðh. er ekki kominn, en ég hafði gert til hans fyrirspurn vegna kostnaðar á tveimur opinberum bústöðum, sem byggðir voru á Héraði. Annar er dýralæknisbústaður á Egilsstöðum, en hinn er prestsseturshúsið á Valþjófsstað. Á þessum bústöðum er ekki nema fárra cm stærðarmunur og mjög álíka vandaðir, en þó reyndist dýralæknisbústaðurinn kosta allt að þrisvar sinnum meira. Hvað aðstöðu við byggingarnar viðvíkur, þá er 65 km lengra að flytja efni að þeim bústað, sem ódýrari varð. Þess má geta, að báðir þessir bústaðir voru teiknaðir af húsameistara ríkisins. Það virðist því vera eitthvað einkennilegt við þetta, og vænti ég að fá upplýsingar hjá ráðh. um þetta mál. Vænti ég, að dagskrártill. mín verði samþ. og afhendi forseta hana hér með.