16.12.1946
Efri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. N. hefur fjallað um brtt. þær, sem hv. þm. Barð. lagði hér fram, síðast þegar málið var til umræðu. 1. brtt. hv. þm. Barð. var á þá leið, að aftan við 4. gr. bættist ný málsgr., svo hljóðandi: „Kostnað við byggingu prestsbústaða í kaupstöðum greiði ríkissjóður þó aðeins að 2/5 hlutum.“ N. hefur aflað sér upplýsinga um það, að nú þegar er búið að byggja prestsbústaði í ýmsum kaupstöðum landsins á þann veg, að ríkið ber allan kostnaðinn af þeim. Þannig hafa t. d. verið byggðir prestsbústaðir á Siglufirði og Ólafsfirði að öllu leyti á kostnað ríkisins. Ef þessi brtt. yrði samþ., mundi þetta því leiða til misréttis, sem ekki væri rétt að vera valdur að með lagasetningu, þannig að aðeins þeir prestsbústaðir, sem eftir þennan tíma yrðu byggðir, yrðu kostaðir af ríkinu að 2/5 hlutum. N. taldi því ekki fært að leggja til, að þessi brtt. hv. þm. Barð. yrði samþykkt.

Þá var sú önnur brtt. hv. þm. Barð., að fyrri málsl. 5. gr. skyldi orðast svo: „Ríkissjóður lætur byggja prestsseturshús samkv. fyrirmælum þessara laga, svo fljótt sem verða má og eftir því, sem fé er veitt til þess í fjárlögum.“ Nú er í l., að minnst skuli byggja 2 prestsseturshús. Ef till. hv. þm. yrði samþ., yrði meira að segja þetta lágmark fært niður og þá rýrður sá réttur, sem nú er lögbundinn. Það vildi n. ekki. Hins vegar var hún búin að draga úr skyldunni, sem lögð var á herðar ríkissjóði, með þeirri orðalagsbreyt., sem hún hafði áður lagt til, að byggja skyldi allt að 4 prestsbústöðum á ári. Með brtt. hv. þm. Barð. væri hins vegar að því stefnt, að fjvn. léti undir höfuð leggjast að láta nokkurn eyri til þessa liðar. Hins vegar er sannað, að ærin þörf er á að byggja prestssetursbústaði nokkru örar en gert hefur verið hingað til. Við teljum því rétt, að við höldum okkur við þá brtt., sem við höfum lagt til áður, að lagt verði fram fé til að byggja allt að 4 prestssetursbústaði á ári, þannig að gert er ráð fyrir, að byggðir verði 3 bústaðir á ári og hámark 4, þegar það rúmt er orðið fyrir hjá fjárveitingarvaldinu, ef það yfirleitt kæmi fyrir.

Þá er ein brtt. hv. þm. Barð. um það, að bygging prestsseturshúsa á jörðum ríkisins skuli jafnan ganga fyrir byggingu annarra prestsbústaða. Ég býst við, að n. hafi haft tilhneigingu til að samþ. þessa brtt., einmitt til þess að knýja á um það, að hinir lélegu prestsbústaðir úti um sveitir landsins yrðu látnir sitja fyrir. En nú er upplýst, að á undanförnum árum hafa prestar hér í Reykjavík og sumum öðrum kaupstöðum landsins sagt frá ári til árs, að þeir yrðu að sætta sig við það fyrst um sinn, að prestsbústaðir úti um land yrðu látnir ganga fyrir, áður en þeir gætu gert sér vonir um það, að yfir þá yrði byggt, og að í fyrsta lagi gætu þeir vænzt þess, að yfir þá yrði byggt 1947. Og ráðh. hefur gefið út bréf um það, að 1947 skuli byggt yfir 2 presta hér í Reykjavík. N. hefur verið skýrt frá því, að þessir 2 prestar, sem þarna hafi fengið ákveðin loforð fyrir, að byggt verði yfir þá, búi við mjög lélegt húsnæði. Þetta eru prestarnir Garðar Svavarsson og Jón Thorarensen; og er sagt, að þeir búi uppi á loftum, þar sem eru fleiri íbúðir og húsnæði þeirra að öllu leyti lítt eða ekki viðunandi. Okkur í n. skildist þessi till. hv. þm. Barð. miða að því, að 1947 yrði byggt fyrir þá fjárveitingu, sem látin yrði til þessara hluta, úti um byggðir landsins, en ekki fyrir Reykjavík. En það mundi ekki verða hagur, þó að þessi lagasetning kæmi til. Víða er það svo, að kirkjan á lóðir undir prestsseturshús í kaupstöðum landsins, t. d. á Ísafirði. Gamla prestsjörðin á Eyri hefur raunar ekki verið prestssetur, á gömlu jörðinni, en bæjarfélagið hefur viðurkennt skyldu sína til þess að leggja þar til lóð undir prestsbústað á gamla staðnum, og gæti því ákveðið notið forréttinda bygginga í kaupstöðum, sem mér skildist hv. þm. vilja koma í veg fyrir með till. sinni. Og biskupinn telur, að sveitirnar hafi verið látnar ganga fyrir í mörg ár og kaupstaðirnir látnir sitja á hakanum fram að þessu, a. m. k. að verulegu leyti.

Þá er brtt. frá hv. þm. Barð. um sölu þjóðjarða og kirkjujarða. N. telur, að það mál, hvort fara eigi inn á þá braut að selja þjóðjarðir, sé mál út af fyrir sig og nái ekki neinni átt að blanda því inn í þetta frv. Þetta mun sérstaklega vera til komið vegna staðhátta í kjördæmi hv. þm., vegna prestssetursins á Stað á Reykjanesi, en það telur n., að væri varla fullnægjandi tilefni til þess að setja 1. um sölu þjóðjarða og kirkjujarða almennt, og leggur því ekki til, að það verði leitt inn í þetta frv.

Þá er brtt. við 16. gr., og eins og hv. þm. sagði, þegar hann lagði þetta fram, kemur þetta því aðeins til samþykktar, að hinar till. hans hljóti samþykki, en í till. við 16. gr. er lagt til m. a., að aftan við gr. komi ný málsgr., er orðist svo: „Árgjald prests af prestsbústað í kaupstöðum, sem ríkið styrkir samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þessara laga, skal vera 2/5 af því gjaldi, sem greitt er samkvæmt þessari grein af húsi á sambærilegum stað.“ Verði 1. till. við 4. gr. ekki samþ., sem ég auðvitað held ekki komi til framkvæmda, mundi hæpið að áliti n. að gera upp á milli presta í kaupstöðum og í sveit að þessu leyti. Niðurstaða n. er því sú, að hún getur ekki mælt með neinum þessum till. og leggur til, að þær verði felldar af þeim ástæðum, sem ég hef tilgreint.

Þá hefur hv. 1. þm. N-M. lagt til, að þessu máli verði vísað frá með rökst. dagskrá þess efnis, að þetta frv. verði látið bíða, þangað til að l. hafi verið sett um embættismannabústaði, en þar undir kæmu sjálfsagt bústaðir fyrir lækna, sýslumenn, presta, skólastjóra og kennara og yfirleitt þeir bústaðir, sem skylt þætti, að ríkið byggði fyrir opinbera embættismenn. Hins vegar er það óhrekjanlegt, að prestastéttin hefur ein allra stétta haft ókeypis bústaði frá upphafi kristni hér á landi, og það væri því skerðing á margra alda gömlum rétti, ef þessi stétt væri svipt honum að einhverju leyti. Þá er og þess að gæta, að aðstaðan. er að mörgu leyti ólík og mismunandi reglur hafa gilt um hlutdeild ríkisins við byggingu embættismannabústaða, því að eins og kunnugt er, hafa t. d. læknisbústaðir að nokkru leyti verið reistir fyrir opinbert fé og að nokkru leyti fyrir fé úr sveitarsjóðum og þar með eign þeirra, og ákveða þeir svo, hvað læknar greiða fyrir notkun bústaðanna. Ef kæmi til sameiginlegrar lagasetningar fyrir embættismannabústaði, þá er mjög vafasamt, hvort nokkrar reglur séu til, sem hægt væri að fara eftir í þessum efnum. Það er sannfæring mín, að slík lagasetning yrði stórkostleg gjaldabyrði fyrir ríkissjóð frá því, sem nú er, og eru engar líkur fyrir, að það yrði til þess að létta á ríkissjóði að vísa þessu máli frá nú og láta það fá sameiginlega afgreiðslu með lagasetningu um embættismannabústaði. Auk þess má það vera öllum ljóst, að í þessu frv. eru mörg önnur ákvæði en beinlínis um byggingu prestssetra, og fjallar t. d. 1. gr. um athugun á því, hvar byggja skuli prestsbústaði í framtíðinni, hvernig skipta skuli prestsjörðum og flytja til prestsetur eftir breyttum aðstæðum. Það er því mjög margt, sem mælir gegn því, að þessu máli verði skotið á frest, enda þegar búið að skjóta því á frest árlangt, ef ekki árum saman.

Þá hefur n. láðst að gera brtt. við 30. gr. frv., um gildistöku l., en þegar frv. var lagt fyrir síðast, var gert ráð fyrir, að l. mundu koma til framkvæmda 1. júní 1946, og leggur n. því til, að í stað „1946“ komi: 1947. Leyfi ég mér hér með að afhenda hæstv. forseta brtt. varðandi þetta atriði:

Ég held, að ég hafi minnzt á það helzta, sem n. telur ástæðu til að taka fram í sambandi við brtt. hv. þm. Barð. (GJ) og um málið eins og það liggur fyrir nú. Byggist þessi afstaða n. á þeim upplýsingum, sem hún hefur fengið frá öruggum heimildum um það, hvernig þessu máli víkur við nú, sem brtt. fjalla um.