13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því, að ég hef ekki fylgzt með umr. um þetta mál, en það eru tvö atriði, sem koma mér til að standa upp.

Ég vil mæla á móti því í fyrsta lagi, sem hv. þm. sagði, að prestssetrum í kaupstöðum og prestssetrum í sveitum væri ekki gert jafnhátt undir höfði. Það getur að vísu komið til álita, hvort yfirleitt eigi að veita prestum þau hlunnindi, sem hér um ræðir, en ef þau eru veitt á annað borð, eiga þau að ná jafnt til kaupstaðanna og til sveitanna. Það er sannast að segja, t. d. varðandi Reykjavík, að ef nýir prestar koma hingað, þá er oft erfitt fyrir þá að fá húsrúm nema með opinberri aðstoð. Má segja, að þetta gildi um marga aðra menn, en úr því að lagafyrirmæli eru sett um presta í þessum efnum, þá er víst, að örðugleikar hér í Reykjavík eru ekki síður en annars staðar, og þori ég að fullyrða, að erfiðleikar prestanna hér í þessum efnum eru meiri en víðast hvar úti um land. Vildi ég þess vegna mæla á móti brtt., sem settu presta hér í Reykjavík út undan í þessu tilliti. — Hins vegar verð ég að segja, að mér virðist frv. þynnt allmikið út, ef brtt. n. við 5. gr. verður samþ., og sé ekki, að efni frv. verði harla mikið, eftir að búið er að samþykkja gr. þannig, en í brtt. segir, að byggja skuli allt að fjögur prestsseturshús á ári. Það eina, sem í þessu felst, er það, að Alþ. ætti að vera óheimilt með fjárl. að veita fé til fleiri prestssetra en fjögurra árlega, svo að þetta er takmörkun frá því valdi, sem Alþ. hefur nú, en ekki aukning á réttindum prestanna. Verð ég að segja það, að slík takmörkun mundi sennilega talin hafa litla þýðingu, ef fjárveitingarvaldið væri svo ríflegt, — sem þarna er gert ráð fyrir, — að það hefði löngun til þess að veita fé til að byggja fleiri en fjögur prestssetur á ári, og geri ég ráð fyrir, að ef fjárveitingarvaldið ætlaði sér slíkt, mundi það verða gert, hvað sem þessu ákvæði líður. Er svo ákveðið í frv., að bústaðirnir, sem reistir eru, megi ekki fara fram úr fjórum. Þetta er óheppilega til orða tekið. — Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vil benda n. á, að ef ætlunin er að bæta hag presta, þá væri heppilegra að breyta hér orðalagi.