17.01.1947
Neðri deild: 55. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. um skipulag og hýsing prestssetra er samið af biskupsskrifstofunni og flutt af menntmn. Ed. fyrir mín tilmæli og fjallar um, hvernig haga skuli byggingu prestsbústaða og hver gjöld prestar skuli greiða vegna bygginganna. Nú eru í gildi lög frá 1935 um hýsingu prestssetra, en þau eru orðin í svo miklu ósamræmi við allt verðlag, að ógerningur er að fara eftir þeim. Ákvæði eru í þeim lögum um, hvað ríkið megi leggja fram til hvers prestsseturs og hvað hver prestur eigi að leggja fram á móti. Þessi ákvæði eru langt frá að samrímast nútíma verðlagi, og er því nauðsynlegt að endurskoða þau. Ástandið í byggingarmálum prestanna er nú þannig, að á annað hundrað presta þurfa húsnæði. Þegar hafa verið reist á nokkrum prestssetrum myndarleg og góð hús, sem veita prestunum beztu skilyrði. En á öðrum stöðum eru ýmist engin hús eða algerlega óviðunandi. Misræmið milli aðbúnaðar hinna ýmsu aðila innan prestastéttarinnar er því svo mikið, að nauðsynlegt er að bæta þar verulega úr. Það er nú miklum erfiðleikum bundið að fá presta í prestaköllin úti um land, og þarf því að gera eitthvað, sem miðar að Því að draga þá þangað. En það verður áreiðanlega ekki hægt, ef byggingar þar eru lélegar eða engar. Ef byggt er með núverandi tilkostnaði, verður ríkið að taka á sig verulegan hluta kostnaðarins, því að ef prestarnir sjálfir ættu að greiða kostnaðinn, yrði æpandi ósamræmi milli kjara þeirra og hinna, er búa í gömlu og góðu húsnæði. Þetta frv. er til að bæta úr þessum vandamálum og skýrir sig að öðru leyti sjálft. Gert er ráð fyrir, að nefnd verði sett til að athuga húsnæðismál presta. Skal hún ákveða bústöðunum staði og gera af þeim skipulagsuppdrætti og sjá um framkvæmd bygginganna. Gert er ráð fyrir enn fremur, að ríkissjóður greiði kostnaðinn við byggingarnar, en sumt af honum verði endurgreitt sbr. 16. gr. Greiðslur ríkissjóðs verða sem sé að nokkru leyti kvaðalaust framlag, en hluti þeirra skal endurgreiðast. Ýmis ákvæði og smærri atriði tel ég ekki nauðsynlegt að ræða á þessu stigi málsins. Annars hefur þetta frv. verið afgr. frá Ed. og vænti ég þess, að þessi hv. d. geti eins sætt sig við það. Menntmn. Ed. hafði málið til meðferðar, og leyfi ég mér því að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til menntmn.