27.02.1947
Efri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

24. mál, tekjuskattsviðauki 1947

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja hv. 1. þm. Eyf. það, að afstaða mín til þessa máls er nákvæmlega hin sama nú og 31. okt. í haust, er því var frestað vegna fyrirspurnar frá mér á þeim grundvelli, að tekin yrði til athugunar breyt. á skattalögunum almennt. Hæstv. fjmrh. lýsti yfir því áðan, að skaðlaust væri með öllu að vísa málinu til Nd., því að þar mætti þá stöðva það. En nú er á hinn bóginn upplýst, að nauðsynlegt sé að gera út um það þegar, og þess vegna er heldur ekki hægt að stöðva það í Nd., unz komið hafi verið í kring samræmdum breyt. á skattalögunum almennt. Og þegar málið er rökstutt með því, að nauðsynlegt sé að afla þessara tekna í ríkissjóð, þá er því til að svara, að þær tekjur þurfa að vera meiri, og ég er á móti þeirri stefnu, að frv. þetta verði framlengt aðeins sem einn liður í tekjuöflun ríkisins. Það þarf heildarendurskoðun tekjuöflunarmálanna.

En þetta hér er beint áframhald af stefnunni í október, og því greiði ég atkv. gegn þessu frv.