07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. munu hafa heyrt það á hv. þm. Barð., að honum fannst of mikið innihald í 5. gr. eins og menntmn. vildi hafa hana þegar frv. var afgreitt síðast, vegna þess að hann taldi, að fjárveitingavaldið væri tekið af þingum næstu ára, og vildi hann, að þetta væri í samræmi við till. hans. En svo kemur hæstv. dómsmrh., og talaði hann ekki fyrir hönd stj., heldur fyrir hönd skynseminnar og segir, að ekkert innihald sé í 5. gr. Og menntmn. hélt sig hafa dregið það úr orðalagi gr., að engu fjármálavaldi þyrfti að standa stuggur af henni. Þrátt fyrir það að hæstv. dómsmrh. hafi huggað hv. þm. Barð. með, að ekkert fælist í gr., þá er enn þá uggur í þessum hv. þm. Ég get tekið undir það með hæstv. dómsmrh., að hér sé ekki of djúpt tekið árinni, og enn fremur get ég tekið undir það með hv. 1. þm. Eyf., að þarna er skylt að byggja einn prestsbústað á ári, en bent hefur verið á, að byggja þyrfti fjóra. Fordæmi er frá í fyrra um að byggja 1–2 bústaði á ári yfir héraðsdómara. Það fordæmi skuldbindur Alþ. til að gera þessum tveimur stéttum sömu skil, og þar sem prestar eru nær fjórfalt fleiri en héraðsdómarar, væri prestum ekki betur séð fyrir húsnæði með 4 bústöðum á móti einum handa héraðsdómurum. Ég hafði vonað, eftir afstöðu hæstv. dómsmrh. í haust, að hann jafnvel vildi herða á ákvæðum 5. gr., þannig að á fjárlögum yrði veitt fé til byggingar fjögurra prestsseturshúsa, en nú skilst mér hann gangast inn á meðferð Nd.

Út af brtt. hv. 2. þm. Árn., þá finnst mér, að það efni, sem till. hans fjallar um, felist í 1. gr. frv., um rækilega athugun prestssetra. Þetta er rannsóknarefni, sem þarf að ganga úr skugga um, og það verður ekki gert án þess að leita álits sóknarnefnda, presta og prófasta og síðan að fá samþykki kirkjumrh. áður en byggt er. Um þetta er því ekki betur hægt að búa. Ég verð að segja það, að ég finn ekki, hvað er nýtt í till. hv. 2. þm. Árn., og er ekki betur um hnútana búið með henni, og mun ég því ekki sjá ástæðu til að samþykkja hana.

Að öðru leyti er óþarft að hafa fleiri orð um þetta. En hv. þm. Barð. telur ekki ástæðu að taka undir 5. gr. vegna of mikilla fjárhagslegra kvaða, og vill hann hafa aðferð Nd., og það ætlar hæstv. dómsmrh. að taka undir þvert ofan í fyrri yfirlýsingar.