07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér er tjáð, að ekki sé óalgengt, að dómarar líti í Alþingistíðindi áður en þeir kveða upp dóma, ef fyrirmæli laga eru óljós. Nú er því haldið fram af hæstv. dómsmrh., að skilningur hans á 5. gr. sé annar en hann. var hjá hv. menntmn. Og ef það á að skiljast svo, að ekki sé skylt að veita nema litla fjárhæð til prestsbústaða skv. 5. gr., þá er gott að vita, að þetta hefur komið fram. Nú hefur form. menntmn. lýst yfir því, að hann telji, að fyrirmæli laganna séu uppfyllt, ef byggður sé einn prestsbústaður á ári. Það er gott fyrir fjvn. að fá þessar upplýsingar, og eftir þennan skilning á frv. get ég betur sætt mig við það, ef málið verður afgreitt þannig. N. er að stofna málinu í voða með þessum breyt., því að þá fer það í Sþ., og er ekki treystandi, að aðrir þm. séu þessu fylgjandi. En hv. frsm. er kannske sama, þó að þetta frv. fari í sömu gröf og frv. um sóknargjöld. Það er einkennilegt, að menntmn. skuli gefa út álit frá sér, sem er aðeins frá meiri hl. n., því að hv. þm. Árn. lýsir yfir því; að hann vilji breyta frá áliti hennar, og er því n. ekki óskipt um málið.