07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Það er nú orðinn ágreiningur um, hvort till. menntmn. um orðalag á 5. gr. hefði nokkra þýðingu og legði skyldur á ríkið eða minni en frv. óbreytt, og virtist mér hæstv. dómsmrh. halda því fram. Það er erfitt að deila við mjög lærða lögfræðinga um skilning á lögum, en ég held, að enginn nema lögfræðingur fengi þessa útkomu, og ég er viss um, að hver leikmaður hallast að því, að lögð sé skylda á ríkið með till. n. Nú var fyrir eina tíð, að ákveðin var tala ráðherra, og skyldu þeir vera þrír. Nú vildi ég spyrja hæstv. dómsmrh., ef stjskr. legði svo fyrir, að ráðherrar skuli vera allt að fjórir, þyrfti þá engan? Þetta er hliðstætt. Leikmenn ólærðir álíta, að þegar stefnt er að því að byggja alla þessa fjóra prestsbústaði, þá er það sterkara en að fara aðeins eftir því, hvaða fé sé veitt til þessa á fjárl. Ólöglærðir menn hafa lengi verið í meiri hl. á Alþ., og býst ég við, að skilningur þeirra verði ofan á.

Þá vildi ég segja örfá orð út af ræðu hv. þm., Barð. og hv. 2. þm. Árn. Hv. þm. Barð. vitir það, að fram komi till. frá menntmn. og svo komi hér í ljós, að allir nm. séu ekki sammála. Ég hef áður skýrt það og hygg, að hann „praktiseri“ þann skilning, að samhljóða till. þeirra nm., sem á fundi eru, er till. nefndarinnar: Nú stóð svo á, að þegar menntmn. afgreiddi þessa till., var hv. 2. þm. Árn. á fundi í byrjun, en þurfti að fara, en hafði áskilið sér óbundið atkv., en tók ekki afstöðu til málsins. Ég tel því fullkomlega heimilt að telja það till. frá n., þegar það er gert með samhljóða atkvæðum þeirra, sem á fundi eru, og allir geta tekið þátt í störfum. Þessu hefur verið beitt við mig, þegar ég mótmælti, að till. væri frá fjhn., og hélt ég því fram, að till. væri frá meiri hl. n. En ég var þá veikur, þegar till. var á döfinni, og var meðnm. mínum kunnugt um, að ég var á annarri skoðun. Þessi till. var í sambandi við launalögin. Annars, út af hinni skriflegu till. hv. 2. þm. Árn., þá tek ég þar undir orð hv. 3. landsk., og vildi ég benda hv. 2. þm. Árn. á, að ef till. ætti fram að ganga, þá væri réttara að taka þetta í samræmi við 1. lið 1. gr. en að þetta kæmi sem sérstök grein á eftir 5. gr. Það finnst mér ekki eiga við á þeim stað. Ef hann hefði borið þetta fram í n., þá hefði ég bent honum á þessa leið, sem er formlega réttari. Það yrði of flókið að bera fram skriflega brtt. við skriflega brtt., svo að ég mun ekki gera það, en vildi benda á, að betra væri að taka þessa till. aftur og bera fram aðra, sem félli betur inn í frv.