07.03.1947
Efri deild: 87. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég mundi nú vilja skjóta því til hæstv. forseta, að hann frestaði umræðu, m. a. til athugunar brtt. hv. 2. þm. Árn., hvort hægt væri að koma þeirri till. að, og hvar hún ætti bezt heima. En til viðbótar kem ég hér nú auga á ákvæði í annarri málsgr. 9. gr., sem ég tel mjög varhugavert, en ég hef ekki athugað þetta fyrr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú verður eigi samkomulag milli trúnaðarmanns kirkjumálaráðherra og hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar um stærð og legu slíkrar lóðar, og skal þá ágreiningi skotið til skipulagsnefndar bæja og kauptúna til fullnaðarúrskurðar.“

Samkvæmt þessu á skipulagsnefnd bæja og kauptúna að dæma í málum ríkisins og sveitarfélaganna. Mér sýnist nú eðlilegra, að þeim deilum væri skotið til Alþingis. Mér er kunnugt um, að nú er deila milli Reykjavíkurbæjar og kirkjumálastjórnarinnar. Kirkjumálastjórnin óskar eftir tveimur lóðum undir prestsseturshús í Hallgrímssókn í stað þess að byggja eitt hús yfir báða prestana þar, eins og gert var ráð fyrir í fyrstu. Bæjarstjórnin hafði því aðeins ætlað eina lóð undir prestsseturshús í þeirri sókn, og nú er engin óbyggð lóð lengur til innan takmarka sóknarinnar, nema breyta ætti skipulagi bæjarhlutans. Þau auðu svæði, sem þar eru enn þá, eru ætluð undir opinberar byggingar. Bæjarstjórnin er eðlilegasti aðilinn til að segja um, hvað sé hægt í þessu efni, og í þessu tilfelli hefur hún boðið lóð, sem er að vísu fyrir utan mörk Hallgrímssóknar, þar er aftur á móti nóg af óbyggðum lóðum. En að lægra sett stjórnvald en ráðherra og bæjarstjórn eigi að fara að skera úr ágreiningsmálum þeirra, eins og gert er ráð fyrir í 9. gr. þessa frv., get ég ekki fellt mig við. Eðlilegra væri, að þeim málum væri þá skotið til Alþingis, og það gæti þá með sérstökum lögum skyldað sveitarfélög til að láta lóðir af hendi. Þar með væri málið rætt og lagt fram opinberlega og þyrfti þá ekki að óttast neinn handahófsúrskurð.

Ég legg því til, að síðari málsgr. 9. gr. verði felld niður, og ég get lagt fram skriflega brtt. um það, ef málinu verður nú ekki frestað.