18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

176. mál, tannlæknakennsla

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er þetta mál komið í gegnum hv. Nd. og mun hafa farið umræðulaust til menntmn. þessarar hv. d. við 1, umr. N. hefur athugað málið og mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt. En af því að það hefur ekki verið gerð grein fyrir frv. hér í hv. d., vil ég aðeins gera grein fyrir efni þess nú.

Í l., sem gilda nú um tannlæknakennslu við háskólann, er svo ákveðið, að stúdentar, sem vilja ljúka þessu námi þar, skuli ljúka miðhlutaprófi við læknadeildina, áður en þeir hefja tannlæknanám. En með því móti verður heildarnám þeirra sjö ár. Nú liggur ljóst fyrir, að til miðhlutaprófs í læknisfræði er krafizt meiri þekkingar í almennum læknisfræðum en nauðsynlegt er fyrir almennar tannlækningar, og mun þetta fyrirkomulag hafa verið ákveðið til þess að spara útgjöld við að kenna tannlæknastúdentum sérstaklega. Aftur á móti mun ekki á öðrum Norðurlöndum vera krafizt svo mikils náms fyrir þá, sem stunda vilja tannlæknanám, heldur mun nám þeirra vera 4–5 ár. Nú er gert ráð fyrir, að ekki verði krafizt meira undirbúningsnáms en við tannlæknaskóla annars staðar og þannig geti tannlæknastúdentar hér lokið námi sínu á jafnlöngum tíma og annars staðar. Það munu vera dæmi þess, að stúdentar, sem hafa ætlað sér að stunda þetta nám, hafa farið utan til þess vegna þess langa námstíma, sem hér hefur verið ákveðinn.

Í grg. er tekið fram, að þeir, sem búnir eru að taka miðhlutaprófið, eigi ekki meira eftir en 2 ár til þess að ljúka fullnaðarprófi og því sé eðlilegt, að þeir kjósi heldur að halda áfram og taka það en bæta við sig aðeins til þess að stunda þessa sérgrein, og þar af leiðandi verði ekki neitt útlit fyrir, að aðsókn verði að tannlæknadeild háskólans.

Ég vil svo leyfa mér fyrir hönd n. að mælast til þess, að frv. verði samþ. óbreytt. En einn nm., hv. 2. þm. Árn., var ekki á fundi, þegar málið var afgr., og hefur hann því óbundnar hendur við afgreiðslu málsins.