06.11.1946
Efri deild: 10. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

42. mál, sala Hringverskots í Ólafsfirði

Flm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkvæmt beiðni bæjarstjórnar Ólafsfjarðar, og í bréfi bæjarstjóra frá 22. okt., sem prentað er sem fskj., koma fram ástæðurnar til þess, að kaupstaðurinn æskir að eignast þessa jörð. Eins og þar getur, er jörðin í eyði, og ætti því ekki að vera mikil eftirsjón í henni fyrir ríkissjóð. Einkum eru taldar tvær ástæður fyrir því, að kaupstaðurinn eignist þessa jörð. Er sú fyrri, að bærinn þurfi hagagöngu fyrir búpening kaupstaðarbúa, en hin, að skólahús Ólafsfjarðar stendur á þessari jörð. Virðist bæði eðlilegt og hentugt, að eignarréttur bæjarins sé á þeirri jörð, er skólahúsið stendur á. Legg ég svo til, að frv. sé vísað til hv. landbn.