27.01.1947
Efri deild: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

140. mál, sala Böggvisstaða í Svarfaðardal

Flm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt sannkvæmt beiðni hins nýja Dalvíkurhrepps og fer fram á heimild til ríkisstjórnarinnar til að selja jörðina Böggvisstaði í Dalvíkurhreppi. Enn fremur er ákvæði um, að býlið Árgerði, sem talið er sérstakt býli og metið sér í jarðamatsbók, en upphaflega byggt úr Böggvisstaðalandi, fylgi með í sölunni með sérstökum skilyrðum. Hluti kauptúnsins á Dalvík er byggður úr Böggvisstaðalandi, en hinn hlutinn liggur alveg að því. Nú er Böggvisstaðaland mjög vel til ræktunar fallið, og er kauptúnsbúum nauðsynlegt að fá þar land til ræktunar, sem hreppsnefndin skiptir á milli þeirra. Ég get búizt við, að ekki líði á löngu, þar til farið yrði fram á eignarnámsheimild fyrir jörðina Brimnes, sem meiri hluti kauptúnsins stendur á. En Brimnes er í einstaklings eign, en Böggvisstaðir í ríkiseign, og þar sem þess hefur ekki verið óskað, að ég flytti fram nein ákvæði varðandi Brimnes, sleppi ég því alveg.

2. málsgr. fjallar um býlið Árgerði. Hún er sett eftir samkomulagi, sem varð milli hreppsnefndarinnar og héraðslæknisins á Dalvík. Árgerði er gamalt læknissetur, og bjó Sigurjón Jónsson þar alla sína læknistíð í Eyjafjarðarsýslu. En er læknaskipti urðu, settist næsti læknir að á Dalvík. En núverandi héraðslæknir, Daníel Daníelsson, hefur tekið Árgerði á leigu og byggt þar dýrt íbúðarhús, og er ætlun hans að búa þar, en hafa lækningastofu í kauptúninu, og óskar því eftir Árgerðislandi til erfðaábúðar. Hefur hreppsnefndin ekkert á móti því, og sé ég ekki, að Alþ. ætti að hafa það heldur, því að svo er áskilið, að hann fái ábúðina samkv. l. er Alþingi hefur sjálft sett. Ég hef þó sett í frv., að hann eigi að gjalda sömu leigu fyrir ábúðina og nú er. En ef farið er nákvæmlega eftir l. um erfðaábúð, mundi eftirgjaldið lækka. Árgerði er, að mig minnir, metið á 1800 kr. og yrði þá gjaldið 54 kr. samkv. l., en er nú 85 kr., og sýnist mér ekki ástæða til að lækka það, þótt að öðru leyti sé farið eftir téðum l. Fleiri upplýsingar gæti ég gefið, t. d. þeirri n. er kemur til með að fjalla um málið, og sleppi þeim því að svo stöddu. Mér finnst eðlilegast að vísa málinu til hv. landbn. og geri það að till. minni.