27.02.1947
Efri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

140. mál, sala Böggvisstaða í Svarfaðardal

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til athugunar og sendi það frá sér kirkjumrn. til athugunar. N. barst umsögn ráðuneytisins í bréfi, dags. 19. febr. þ. á., og hefur bréfið verið birt hér með nál. sem fskj. — Við athugun á þessu frv. kom í ljós, að landbn. og kirkjumrn. geta mælt með því og lagt til, að frv. verði samþ. í meginatriðum, eins og það liggur fyrir. Þó hefur verið talið nauðsynlegt að gera á því þrjár smávægilegar breyt., til þess að í þessum l. væru ákvæði hliðstæð því, sem venja er til að taka upp í önnur áþekk l. Þessar breyt. eru í því fólgnar, að ákveðið sé í l. sjálfum, að jörðin sé seld samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna og að ríkið skuli eiga endurkaupsrétt á jörðinni eða hluta úr henni, ef ríkið þarf á því að halda fyrir ríkisstofnanir eða ríkisfyrirtæki, og þá á verði, sem ekki er hærra en matsverðið við söluna, — og loks, að Dalvíkurhreppi sé skylt að kaupa af ábúanda Böggvisstaða, þegar hann fer burt af jörðinni, hús hans og önnur mannvirki á jörðinni, eftir mati úttektarmanna, ef öðruvísi semst ekki. — Þessar breyt. hefur þótt rétt að taka upp í frv. Leggur landbn. því til, að frv. verði samþ. að við bættum þessum þremur breyt.