26.11.1946
Neðri deild: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

84. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Frv. þetta á þskj. 129 er flutt samkv. beiðni skólastjóra stýrimannaskólans, og með grg. fyrir frv. er birtur útdráttur úr bréfi skólastjórans og sá rökstuðningur, sem hann flytur fyrir þessari breyt. Breyt. er um skilyrði fyrir því að öðlast stýrimannsskírteini. Á fyrri hluta þessa þings var þessum skilyrðum breytt lítils háttar, eftir beiðni Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, þannig að mönnum var ekki gert að skyldu að hafa verið 18 mánuði í siglingu á stærri skipum en yfir 60 smálestir, heldur var nú mönnum gert að skyldu að hafa verið á skipum 36 mánuði alls eins og áður, en það var burt numið skilyrðið um 60 smálestir, og miðast allur tíminn við 30 smálesta skip og þar yfir. En þegar þessi breyt. kom í notkun, ef svo mætti að orði komast, við sjómannaskólann, þá kom í ljós, að mjög margir menn, sem vildu stunda nám við skólann, höfðu hlotið allverulegan hluta af sínum siglingatíma á skipum, sem eru 30 smálestir, því að á mörgum útgerðarstöðum hér á landi eru ekki til stærri skip en 30 smálestir. Þetta hefur orðið til þess, að orðið hefur að synja ýmsum mönnum í haust um skólavist, og má gera ráð fyrir, að svo verði lengi, nema menn njóti þeirra siglinga, sem þeir hafa verið í á smærri skipum en 30 smálestir. Frá kunnáttusjónarmiði er heldur ekkert á móti þessu, því að þessi smærri skip eru í öllum þeim siglingum innanlands, sem skip yfir 30 smálestir eru í, sækja á sömu mið í sömu veðrum, og kunnátta manna verður engu minni af æfingu á slíkum skipum en þeim, sem eru yfir 30 smálestir. Þetta mundi líka, ef þessu yrði ekki breytt, verða til þess, að ekki yrði unnt að fá menn á smærri skipin, og það þykir fullerfitt nú þegar, eftir að verulegur fjöldi stærri skipa hefur verið keyptur til landsins. Menn vilja eðlilega heldur vera á stærri skipunum vegna öryggis og þæginda, og hefur það þegar komið í ljós, að erfitt reynist að fá menn á smærri skipin, en þau vandræði mundu aukast um allan helming, ef þeir, sem ætla sér að nema siglingafræði, geta ekki öðlazt réttindi með því að sigla á skipum undir 30 smál.

Sökum þess, að þetta frv. er flutt af n., mun það ekki þurfa að fara til n. aftur, og óska ég, að því verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.