10.03.1947
Neðri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að skýra frá þeim ágreiningi, sem orðið hefur í n., því að hann er einfaldur. Hann er um eitt einasta atriði. Mér þykir ástæða til vegna ýmissa ummæla í nál. minni hl. að segja um málið nokkur orð.

Eins og tekið hefur verið fram af hv. frsm., þá var yfirleitt friður um þetta mál í n. að undanskildu þessu einasta atriði, um skattfrelsi félagsins. Nú tók meiri hl. það ráð að skýra bara frá þeim árangri, sem orðið hefur af starfi n. og fram kemur bæði í þeim brtt., sem samkomulag varð um, og þeim brtt., sem meiri hl. stendur einn að. Hins vegar hefur minni hl. gefið út langt nál., og það er ástæða til fyrir mig að koma til móts við þessar skýringar frá sjónarmiði meiri hl., sem ekki hefur komið fram að neinu leyti í nál.

Ég skal byrja á því, að það hefur verið lögð mikil áherzla á það í nál. og einnig af hv. frsm. minni hl., að það sé í samræmi við það, sem verið hefur, að skattfrelsi haldist fyrir þetta endurtryggingarfélag. Þetta er eflaust bara misskilningur, en ekki rangfærsla, en þetta félag, sem hér á að skapa, hefur alls ekki verið til, og um þessi hlunnindi, sem það hafi haft undanfarin ár, er því alls ekki að ræða, eins og hv. þm. sjá, ef þeir setja sig inn í þetta mál. Það hefur starfað stríðsslysatryggingarstofnun, sem á engan hátt hefur verið ætlazt til, að væri í minnsta lagi gróðafyrirtæki fyrir neinn, heldur aðeins til að bæta þau líftjón, sem yrðu í stríðinu. Á slíkan rekstur er ekki hægt að leggja opinber gjöld. Það er ekki hægt að leggja gjald á það, að maður gefi fé. Það hefur aldrei verið hugsunin, að maður væri skattskyldur fyrir það, þótt hann gæfi fé til trygginga í slíku fyrirtæki eða þeirra, sem yrðu fyrir slysum. En þegar þessi stofnun varð til, var kosin stjórn fyrir hana, sem falið var að reikna út, hvaða iðgjöld þyrfti að heimta af þeim, sem ábyrgðina fengju, til þess að mæta áhættunni. Þetta var vandaverk, af því að reynsla var ekki fyrir hendi. Það varð þess vegna að hafa nokkurt handahóf til að byrja með og síðan að byggja á þeirri reynslu, sem fékkst árlega. Ég vil ekkert fetta fingur út í þennan útreikning, þó að reynt væri að gæta þess að hafa þau nægilega há, til þess að ekki kæmi til greiðsluþrots hjá stofnuninni. Þá sjá hv. þm., að þetta tókst þannig með útreikning áhættunnar, að á þessum fáu árum hafa safnazt sjóðir, sem nema upp undir 5 millj. kr. Eigendur þessa fjár ætla nú að byggja upp algerlega nýja stofnun, sem er byggð algerlega sem gróðafélag eins og önnur tryggingarfélög. Þess vegna er ekki um neitt slíkt að ræða, að sú stofnun, hafi undanfarið notið slíks skattfrelsis, hún hefur nefnilega ekki verið til. Mér þykir rétt að leggja áherzlu á þetta, af því að ég veit, að hv. minni hl. heldur þessu fram, gerir það í beztu trú af misskilningi og slíkur misskilningur kynni að geta orðið rótfastur í hugum annarra hv. þm. Þess vegna segi ég þetta til leiðréttingar.

En við þetta, sem ég sagði um sjóðsöfnun þessa félags, vil ég bæta því, að þetta, að áhættan hefur verið reiknuð miklu hærri en hún reyndist, hefur haft talsverðar afleiðingar, ekki aðeins þær, að þarna hefur safnazt fé, heldur hefur verið greitt mjög mikið fé úr landinu fram yfir það, sem nauðsynlegt var. Þess verður að gæta, að þessi stofnun hefur endurtryggt erlendis, og vitanlega hafa endurtryggjendurnir úti grætt hlutfallslega við það, sem þetta félag græddi. Ég tel, að ég sé ekki að deila á stjórn þessa félags, þó að ég taki þessi óvéfengjanlegu sannindi fram, því að vitanlega hafa þessir menn reynt að reikna áhættuna út og skapa iðgjöldin í samræmi við það, en hafa viljað hafa vaðið fyrir neðan sig, og þess vegna hefur safnazt allmikið fé. Það er því meiri ástæða til að segja frá þessu, þar sem ég persónulega með öðrum hv. þm. samþ., frv. strax eftir stríðslok, þar sem hinum þungu gjöldum var létt af útgerðinni með tilliti til þess, að þegar stríðinu lauk, virtist svo, að þessi áhætta væri að verulegu leyti liðin undir lok. En þá fengum við þau svör, að þetta hefði hvergi nærri borið sig. En svo eftir eitt ár kemur í ljós, að það hafa einmitt safnazt fyrir nærri því 5 millj. kr. á þessum örstutta tíma, auk þess sem hefur farið til endurtryggjenda erlendis.

Mér þykir því meiri ástæða til að benda á þetta af því, að höfuðhvatamaður þessa máls, sem á ekki sæti í þessari d., hefur áður hafið mjög harða gagnrýni á þá endurtryggingarstofnun, sem ríkið á og ég veiti forstöðu, fyrir að ausið sé fé út úr landinu í endurtryggingar fram yfir það, sem eðlilegt sé. Sannleikurinn í því máli er sá, eins og reikningar þeirrar stofnunar sýna, að í þau 30 ár, sem sú stofnun hefur starfað, hefur aldrei orðið eins eyris afgangur, og yfirleitt hafa iðgjöldin verið sniðin mjög vandlega eftir því, sem raunverulega hefur þurft, aðeins verið tekið það, sem þurfti til að mæta áhættunni, eða tæplega það.

Hv. minni hl. leggur áherzlu á það í nál. sínu, og einnig hefur hv. frsm. gert það í sinni framsöguræðu, að höfuðtilgangur þessa frv. sé það, sem hann og þeir telja mikla þjóðarnauðsyn í fyrsta lagi að geta gert tryggingarnar innlendar og sem minnst sé keypt af endurtryggingum annars staðar og í öðru lagi að geta boðið tryggingarnar niður, geta lækkað þær. Ég hlýt að víkja dálítið að þessu atriði af þeirri einföldu ástæðu, að ég hef kynnzt dálítið svona málum í gegnum starfsemi Samábyrgðar Íslands og veit, að minni hl. er þarna á algerðum villigötum.

Hvað snertir það, sem mjög hefur verið ámálgað í sambandi við þessar tryggingar, að nauðsyn beri til þess að endurtryggja sem minnst erlendis, þá vil ég benda á, að annars staðar er sá háttur á hafður, og það meðal stórríkra stofnana hjá milljóna þjóðum, að áhættunni af tryggingunum er dreift sem allra mest. Ég veit það, að sú endurtrygging, sem ég hef keypt fyrir Samábyrgð Íslands erlendis, er á ákaflega mörgum höndum, þó að þar eigi í hlut félagsskapur, sem er ákaflega fésterkur. Það er algengt, þó að stórrík félög eigi í hlut, að áhættunni sé dreift allt niður í 2%, og sjaldan, að nokkur sé með 10%. Nú skyldi maður ætla, að þetta væri byggt á því, að um svo mikinn gróða væri að ræða. En það á að vera svo um þessa stofnun a. m. k., að það er meiningin, að gróðinn verði sem allra minnstur, og eins og hv. þm. mun vera kunnugt, þá hefur það verið svo um Samábyrgð Íslands, að hinir erlendu endurtryggjendur hafa ekkert haft upp úr því í meira en 30 ár, og þess vegna hefur þar enn þann dag í dag farið örlítið fé út úr landinu, sem ekki hefur komið aftur. Ég held þess vegna, að hér sé um það að ræða að dreifa áhættunni, en ekki það að setja hér ímyndaðan stórgróða.

Hitt atriðið, að svona stofnun, sem gott er að taki þátt í áhættunni með þeim skynsamlega mælikvarða, sem tíðkast um slík fyrirtæki, að hún geti ráðið yfir tryggingarmarkaðinum, er byggt á misskilningi. Ég held, að hver maður sjái, að sá, sem tekur 85%, að það er hann, sem ræður markaðinum. Hitt er annað mál, að það eru margir, sem keppa hver við annan um kjörin og reyna að bjóða niður með tilliti til þess að gera dreifinguna sem ódýrasta. Þessir aðilar bjóða þetta niður hver fyrir öðrum, það lítið, sem hægt er að bjóða. En það er von, að menn, sem ætla að taka að sér 15% af áhættunni, geti ekki ráðið markaðinum. Það eru hinir, sem taka 85%, sem ráða því. Því er hér um misskilning að ræða. Mér er líka kunnugt um það, að þessi trygging togaranna var alls ekki boðin út, bara fengin í hendur ákveðnum aðilum, sem reyna að koma henni niður.

Ég skal svo ekki vera að þvæla þetta mál, en vildi aðeins, að það lægi ljóst fyrir mönnum, þegar þeir greiða atkv. um það, að þessi kvöð, sem er í rauninni engin kvöð, er á allan hátt eðlileg.