28.04.1947
Neðri deild: 118. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fara að rifja upp málavöxtu og gaf ég heldur ekki ástæðu til þess. En vegna ummæla hv. 5. þm. Reykv. vildi ég segja nokkur orð. Hann sagði að það væri rangt, að stríðstryggingarfélagið hefði verið fyrirrennari þessa félagsskapar. En að þeim félagsskap standa þeir sömu aðilar og að þessu félagi, og er það byggt upp af gróða þess, og á þessum grundvelli er búið að starfrækja þetta félag, sem hér um ræðir. En þegar verkefni fyrra félagsins var búið, varð annað hvort að skipta eða láta það halda áfram starfsemi sinni. Sú skoðun varð svo ofan á að láta félagið halda áfram með breyttu viðhorfi, og er nú búið að starfrækja það í eitt ár. Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að þetta sé gróðafélag, en þeir aðilar, sem að því standa, eru Brunabótafélag Íslands, samábyrgð ríkisins og útgerðarmenn, en að það sé aðaltilgangur félagsins, sést bezt á ákvæðunum, hvaða gróða félagið geti boðið, og er þar aðeins um að ræða það ákvæði, að eigendur fái 5% arð, en ef út af ber, þá megi jafna með millifærslu. En það, sem þeir bera úr býtum, er 5%, og er það mjög hóflegt. Markmið félagsins er að vinna að alþjóðarhagsmunum, og er hér með lagður grundvöllur að því, að endurtryggingin færist á innlendar hendur og að félagið geti lækkað iðgjöld trygginganna, og á þessu byggist það, að félagið fái skattfrelsi. Ég hafði bent á það í n. og einnig hér, að á síðasta ári tókst að tilhlutan þessa félags að lækka iðgjöld af nýjum togurum um 3/4%, auk þess sem fyrir liggur, að í sambandi við loftferðir hefur félagið sparað Íslendingum fé, og er ljóst, að frá gjaldeyrissjónarmiði séð, þá er betra að hafa þetta á innlendri hendi. Ég vona því, að meiri hl. n. og hv. d. líti svo á, að það sé eðlilegt og hyggilegt að veita félaginu skattfrelsi, til að það geti unnið að alþjóðarhagsmunum og það geti orðið innlent og lækkað iðgjöldin. Skattfrelsið er ekki svo mikils virði, að ekki svari kostnaði að veita það, til að þetta félag geti þjónað alþjóðarhagsmunum. Enda hefur hv. meiri hl. sjútvn. gengið inn á þetta að nokkru leyti, þar sem þeir hafa borið fram brtt. um, að þetta félag njóti skattfrelsis í 3 ár. Hins vegar hef ég fært fram sannanir fyrir því, að það mundi vera hyggilegra upp á starfsemi félagsins og þjóna alþjóðarhagsmunum, að í l. sé þannig frá því gengið, að félagið njóti skattfrelsis og geti hagað starfsemi sinni í samræmi við það. — Skal ég ljúka þessu máli mínu með því að taka fram, að ég vænti þess, að frv. geti fengið endanlega afgr. nú hér á þessum fundi. En það verður með því einu móti gert, að ekki verði gerðar á því breyt. nú.