29.04.1947
Neðri deild: 119. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

198. mál, tunnusmíði

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Þá hafið þið heyrt greinina, sem á að koma í Alþýðublaðinu á morgun. Það er gott og blessað, að hv. þm. er búinn að létta þessu af sér.

Ég vil fyrst taka fram, að ég tel ósæmilegt að taka hér fyrir mann, Má Einarsson, framkvæmdastjóra tunnuverksmiðjunnar, og segja, að hann sé að öllu leyti eins og Andreas Godtfredsen, sem er dæmdur glæpamaður, sem hefur verið gerður landrækur af Íslandi, og að taka fyrir saklausan mann og segja, að hann sé eins og þessi maður, það gerir aðeins sá, sem veit ekki, hvað er satt og hvað er lygi. (Forseti hringir.)

Ég get upplýst hv. þm. um það, að allir eru sammála um, að hann hafi staðið samvizkusamlega í starfi sínu. Hann stjórnaði um tíma Kaupfélagi Siglfirðinga, og enginn hafði neitt upp á hann að klaga.

Það hefur löngum verið ljóður á ráði hv. þm. Ísaf. að taka einstaka menn fyrir og elta þá með ýmiss konar persónulegum svívirðingum, enda má segja, að sjávarútveginum hrakaði, á meðan hann hafði á hendi stjórn hans. Ég skil, að það sé sárt fyrir þennan hv. þm. að láta grípa á sínum eigin kýlum, en þar fyrir þarf hann ekki að bregðast reiður við og hafa í frammi alls konar blekkingar og svívirðingar um alsaklausa menn.

Mér er spurn, hvað hefur komið af nýjum till. varðandi sjávarútveginn, síðan þessi hv. þ. varð þar mikils ráðandi? Í fyrsta lagi að stöðva þær framkvæmdir, sem allir heilvita menn, hlutu að sjá að voru nauðsynlegar og aðkallandi. Í öðru lagi að ýta við ýmsum mönnum og stjaka þeim frá, sem sýndu áhuga og dugnað í þessum nauðsynjamálum. Reiði þessa hv. þm. má merkileg kallast, og sannar hún það, að hann hefur ekki sem bezta samvizku, hvað þetta snertir. Þá segir hv. þm. það, að ég hafi sent Hauk Björnsson sem sendiherra til Finnlands. Það væri fróðlegt að vita, hvaða flugufót hann hefur fyrir þessu. Ég kom aldrei nærri þessum tunnukaupum, sem hann talaði um, og hvað því viðvíkur, að þær voru frá Godtfredsen, þá var mönnum það ljóst, að tunnur varð að fá, til þess að öll söltun væri ekki stöðvuð, jafnvel þótt þær væru frá Godtfredsen, en hins vegar kom engum í hug að kaupa tunnurnar, nema því aðeins, að þær væru góðar.

Hvað snertir járnið, þá hafði fengizt loforð fyrir því hjá firma einu í New-Castel, en þegar til kom, þá var það bara ekki til. Nú kemur okkur í koll, að hv. þm. Ísaf. var leiðandi maður í sjávarútvegsmálum okkar, því að það er fyrir hans tilverknað, að við skulum ekki enn hafa komið okkur upp tunnuverksmiðjum, sem hefðu getað séð síldarútveginum fyrir nægilega miklu af tunnum. Ég vildi taka það fram hér, að það var á mínum vegum, sem keyptar voru 100 þús. tunnur. Þessum tunnukaupum var það að þakka, að söltunin gat haldið áfram. En það gekk þó ekki þrautalaust að fá þær. Eftir að lengi hafði staðið í stappi út af þeim og þær legið erlendis alllangan tíma, þá fengum við þær útfluttar fyrir góðvilja og atbeina hafnarstjórans í Gautaborg. Þetta hefur hv. þm. Ísaf. enga hugmynd um og heldur ekki það, að þannig er nú ástatt í öllum þeim löndum, sem við eigum viðskipti við, að þar er ekki hægt að fá tunnur. Frá Finnlandi er jú hægt að fá eitthvað, en þær eru bara allar gjarðalausar. Það er ekki sæmandi fyrir sjálfstæða þjóð að gangast undir aðra eins nauðungarsamninga og Svíar hafa gert í þessum málum, en það, sem gerir þeim mögulegt að beita þeim, er það, að engin starfandi tunnuverksmiðja er í landinu sjálfu, og þess vegna verðum við að ganga að afarkostum þeirra til þess að fá tunnurnar. Sá samningur, sem ég gerði í Svíþjóð, er þannig, að skýrt er tekið fram, að kaupandi verði að fá útflutningsleyfi. Ég álít, að engin hætta sé á, að þær seljist ekki. Ef við fáum leyfið, þá eigum við að geta saltað í 96 þús. fleiri tunnur en ella. Það er sannarlega ekki gleðileg tilhugsun, að komið geti til mála að fela síldarútvegsnefnd, þar sem kreppukóngurinn, Finnur Jónsson, er mestu ráðandi, yfirstjórn þessara mála.

Þessi hv. þm. var í því sálarástandi, þegar hann fór til Svíþjóðar, að hann þorði ekki að ferðast yfir Rússland. Hann óttaðist það, að Rússarnir kynnu að gera hann höfðinu styttri. Svo þykist hann vera einhver afreksmaður, þegar heim kemur. Ég skora á hann að finna stað fyrir þeim orðum sínum, að Haukur Björnsson og Godtfredsen hafi verið eitthvað á mínum vegum. Þá fór hv. þm. Ísaf. að tala um það, að eitthvað mundi bogið við ýmislegt í embættisrekstri mínum. Það væri fróðlegt að vita, hvað þessar aðdróttanir hv. þm. eiga að þýða, og ég hélt, að honum færist sízt allra manna að tala um slíkt. Mér finnst hálfgerður hraðbátabragur á allri hans málfærslu, og kannske finnst honum, að hann geti stært sig af hraðbátasamningum sínum. Með þeim átti landhelgisgæzlunni að vera borgið, en hver er útkoman? Afleiðingin af þeim frægu samningum er sú, að landhelgin er nú óvarin. (Forseti (GÞ) : Við vorum nú að tala um tunnusmíði, svo að þetta kemur ekki málinu við.) Það er ekki hægt annað en minna á þessi einstöku afglöp, þegar hv. þm. Ísaf. leyfir sér að tala um embættisóreiðu og mistök hjá öðrum. Þessi hv. þm. ætti að fara sér hóflegar. Hann hefur, meðan hann var dómsmrh., sett embættismann af embætti fyrir það eitt að leyfa sér að tala ókurteislega við hann, en hann hefur orðið að éta það allt ofan í sig aftur.

Það kenndi ýmissa grasa í ræðu — eða öllu heldur blaðagrein — hv. þm. Ísaf. Ég hef punktað sumt af því niður, en ef til vill gefst mér seinna tækifæri, þegar greinin kemur á prent, til að svara henni, og er kannske rétt að fresta umr. um það. Hann hélt því fram, að alltaf hefði verið fyrir hendi áhugi hjá síldarútvegsnefnd fyrir byggingu innlendrar tunnuverksmiðju, en ég átti að hafa hnuplað þessari hugmynd um tunnuverksmiðju. Þetta er ósatt, en út af fyrir sig hygg ég, að það væri bara gott, að góðum málum væri hnuplað frá þeim mönnum, sem hvorki hafa áhuga né vilja til þess að koma þeim nokkru sinni í framkvæmd.

Bréf og till. síldarútvegsnefndar var ekkert nema föndur út í loftið og 5 ára áætlun var óhugsanleg. Búið var að byggja út tunnuverksmiðjunni á Siglufirði, svo að rækilega var séð fyrir, að hún gæti ekki starfað.

Síldarútvegsnefnd hefur aldrei gert neitt til þess að koma tunnuverksmiðjunni upp, en hefur alltaf haldið fram erlendum tunnum. Einhverju sinni kom það fyrir, að tunnur smíðaðar hér reyndust eitthvað gallaðar. Þetta var útbásúnað og notað óspart til þess að níða hinn innlenda tunnuiðnað niður, enda þótt tunnur smíðaðar hér hafi jafnan reynzt vel. Svo leyfir hv. þm. Ísaf. sér að halda því fram, að síldarútvegsnefnd hafi alltaf verið fylgjandi innlendri tunnusmíði. En af samþykktum og till. þessarar nefndar sjá allir, um hve mikinn leikaraskap hér er að ræða, og að alls enginn hugur fylgir þar máli.

Með þeim tækjum, sem við höfum nú til tunnusmíða, getum við ekki keppt við aðrar þjóðir. Þess vegna var ég á móti því að gera ráðstafanir til þess að gera við gömlu verksmiðjurnar, heldur borgaði sig að byggja nýjar. Það er alveg rétt, að nýbyggingarráð sýndi þessu áhuga. T. d. sýndi Magnús Vagnsson mikinn áhuga, en hann talaði fyrir daufum eyrum. Hann á stóran þátt í því, að í þetta var ráðizt, og það er í fyrsta skipti, sem hann hefur fundið skilning á þessu. Þessar verksmiðjur eru ekki aðeins atvinnuspursmál, heldur einnig bráðnauðsynlegar vegna þess, að undir því kerfi, sem hv. þm. Ísaf. kom á í þessum efnum, þá fluttu bæði Svíar og Norðmenn gallaðar tunnur til landsins, sem þeir sjálfir gátu ekki notað og voru allsendis ónothæfar, og þetta gerðist, meðan hv. þm. Ísaf., réð lögum og lofum í síldarútvegsmálum. Þetta vissi Magnús Vagnsson, og hann hefur jafnvel haldið því fram, að við gætum keppt við aðrar þjóðir um tunnur, svo að spursmálið um gæði er ekki álitamál. Ég er vel kunnugur á Siglufirði og þekki það vel, hversu mikið þetta tunnuspursmál hefur að þýða fyrir atvinnuvegi bæjarins.

Ég veit hverjir það voru, sem ekki vildu þetta, það voru Svíar, vegna þess að þeir þurftu að hafa ráð manna öll í hendi sér. Þeir sköffuðu allt að láni, en tóku hagnaðinn. Þeir féflettu saltendur og voru þess megnugir í skjóli síldarútvegsnefndar, þótt vandalaust hefði verið að stöðva það. Auk þess gátu Svíar fylgzt með öllu hjá saltendum, vegna þess að síldarútvegsnefnd hafði þar aðgang að öllu, og gerði þetta þeim auðveldara fyrir að prútta um verð. Það hefur sjálfsagt valdið vonbrigðum hjá Svíum, að ég skyldi verða atvmrh., en ekki hv. þm. Ísaf., vegna þess að þeir hafa ekki fengið þá aðstöðu, sem þeir höfðu fyrir stríð. Svo töldu Svíarnir sig leggja til tunnurnar í góðgerðarskyni og sögðu eins og hv. þm. Ísaf., að þetta væri mjög hagkvæmt fyrir okkur, en svo ráða þeir lögum og lofum í síldarsöltuninni. Þetta er mjög æskilegt að áliti hv. þm. Ísaf., og ef hann á að ráða, þá mun hann skapa Svíum aftur fyrri aðstöðu sína. En svona eru nýlendur arðrændar, t. d. nýlendukúgun Breta, sem skammta nýlendum sínum skít úr hnefa. Og arðrán Svía í skjóli síldarútvegsnefndar var lík kúgun á blökkuþjóðunum. Það fyrirkomulag, sem haft er, er óþolandi, og geta saltendur ekki við það unað, enda er síldarútvegsnefnd illa séð meðal þeirra. En þó höfðu allir Svíar ekki slíka aðstöðu, heldur aðeins sumir þeirra. Ég vil spyrja hv. þm. Ísaf., hvort hann kannast við hr. Larsson. Hann keypti síldina og gat svo selt hana með ágætum hagnaði í Svíþjóð, og frá framkvæmdastjóra síldarútvegsnefndar var þess krafizt, að ég ívilnaði þessum manni. Og eitt sumar var svo hörð deila milli Larssons og annars sænsks aðila, að skip þeirra nærri því sigldu saman á höfninni í kapphlaupi um afgreiðslu, og taldi síldarútvegsnefnd þá sjálfsagt, að Larsson gengi á undan.

Ég get talað við hv. þm. Ísaf. um starfsemi síldarútvegsnefndar, og þarf hann ekki að halda, að ég sé með öllu ókunnugur vinnubrögðum hennar. Það er ekki vafi á því, að söltunin er mesti framtíðar atvinnuvegur Íslendinga, og verðum við að hagnýta sem bezt okkar veiði, svo að við þurfum sem minnst að ganga að fiskimiðum okkar, enda veitir söltunin mest í aðra hönd. Hér er síldarútvegsnefnd falið stórt verkefni, en hún hefur ekkert gert til framfara í þessum málum, enda engar framfarir orðið vegna þess kerfis, sem gerði Svíum kleift að skera allt við neglur við Íslendinga. Nú er það svo enn, að síldin er borin í kassa úr skipinu og svo tekin af stúlkunum og raðað niður í tunnur. Einu framfarirnar, sem orðið hafa, eru því, að kringum árið 1920 var það til siðs að kasta síldinni í bingi úr skipunum, en nú er hún tekin í kassa. Það er því ekki óeðlilegt, að hv. þm. Ísaf. sé stoltur. En það, sem þurfti, var að skapa skilyrði til þess að við gætum framleitt eins og aðrar þjóðir, t. d. eins og Skotar, sem hafa mun erfiðari aðstöðu til síldarverkunar en við. Þó er skozka síldin verkuð innanhúss, sem er nauðsynlegt, einnig er hún verkuð með vélum, svo sem flökunarvélum og slógvélum. En saltendur hér voru þannig fjárhagslega í greip Svía, að þeir gátu ekki einu sinni: byggt skúra eða haldið við bryggjum sínum sómasamlega. En það, sem síldarútvegsnefnd þurfti að gera, var að koma upp nýtízku síldarsöltunarstöð, bæði til að kenna mönnum sem bezta verkun síldarinnar og tryggja sem bezt hagnýtingu hennar. Þetta var nauðsynlegt að gera, og vakti ég máls á þessu, en því verður efalaust ekki sinnt. Þar að auki sýndi síldarútvegsnefnd mjög mikið getuleysi um að afla markaða og sá enga nema í fjórum löndum, í Svíþjóð, Póllandi, Þýzkalandi eða Mið-Evrópu og Ameríku. Þó fór meginhlutinn til Svía, enda voru þeir yfirleitt ráðandi. Af um það bil 300 þús. tunnum tóku þeir 200 þús., sem þeir seldu svo með fimmföldu verði. Samt kom ekki til mála, að síldarútvegsnefnd dytti í hug að koma með niðurlagningarverksmiðju, en þá hefðu útlendingar hætt að geta grætt á þessari framleiðslu okkar. Ef við hefðum lagt síldina niður í dósir og fengið þannig fjórfalt eða fimmfalt verð fyrir hana, þá þyrfti ekki að vera atvinnuleysi hér. Það er talið, að á þeim stað, þar sem saltað er í 20 þús. tunnur, séu skilyrði fyrir tunnuverksmiðju, og ef menn vilja auka atvinnuvegina, þá er hægt að stofna tunnuverksmiðjur á flestum stöðum, þar sem síldarsöltun fer fram á annað borð. Hins vegar kærir síldarútvegsnefnd sig kollótta um söltun nema á Siglufirði, en hefði auðvitað átt að dreifa henni sem mest. En þetta var ekki gert af neinni velvild til Siglfirðinga, heldur fyrir þægilegheit þeirra sjálfra, og var þá líka betri aðstaða fyrir Svía. En þegar möguleikar eru um tunnuverksmiðjur á öllum söltunarstöðunum, þá er þetta mjög slæmt. Og þau störf, sem hvíla á stjórn tunnuverksmiðjunnar, eru eins mikil og störf síldarútvegsnefndar og þó sennilega meiri. Með þessu er því verið að tvöfalda það, sem hvílir á herðum síldarútvegsnefndar, og má sízt við því, enda eru störf síldarútvegsnefndar og tunnuverksmiðjustjórnar alóskyld, og er því ekki hyggilegt, að þau séu látin fara saman. Rökin fyrir þessari nýbreytni eru heldur ekki þau, að verið sé að spara, heldur er tilgangur frv. sá að stöðva smíði tunnuverksmiðjanna á Siglufirði og Akureyri. Sá aukakostnaður, sem um er að ræða, er til þessara þriggja manna, sem eru í stjórn tunnuverksmiðjanna, því að allir aðrir verða að vera þeir sömu, hvort sem þeir vinna hjá síldarútvegsnefnd eða tunnuverksmiðjustjórninni. Og þó að hv. þm. Ísaf. reki Má Einarsson, en það virðist vera mikill áhugi hans, þá verður þó ekki hjá því komizt að hafa sérstakan framkvæmdastjóra. Það er vitað mál, að svo mikið er um að vera á Siglufirði um söltunartímann, að allt hlyti að fara í handaskolum, ef þeir, sem eiga að stjórna tunnuverksmiðjunni, verða að gefa það frá sér og hafa það í hjáverkum sínum. Tunnuverksmiðjurnar þarf að reka árið um kring, en ekki sem aukastörf, sem þó virðist vera tilgangurinn hér, og er það þá gert til þess að slæmur árangur fáist, svo að hægt verði að leggja tunnuverksmiðjurnar niður. Og ef það verður að vera sérstakur framkvæmdastjóri fyrir þessu, þá þarf hann að minnsta kosti að vera betri en framkvæmdastjóri síldarútvegsnefndar. Svo hefur síldarútvegsnefnd legið á fjármunum saltenda mánuðum saman og þeir þess vegna orðið að taka rekstrarlán með 7% vöxtum, en síldarútvegsnefnd hefur ekki látið þá fá uppgjör fyrr en seint og síðar meir. Síðan á að bæta forystu á nýjum atvinnuvegi á þessa nefnd, og er það gert til að bregða fæti fyrir málið. Ég vænti því að almenningur fái tækifæri að reyna þá menn, sem tala svo fagurt fyrir kosningar, en snúast svo gegn málum, þegar til framkvæmdanna kemur og skipuleggja örbirgð hér á þingi. Nú finnst hv. þm. Ísaf. liggja svo mikið við, að hann kemur með vélritað plagg og fer inn á mál, sem ég ræði hér í nál., og er ég ánægður að fá tækifæri til að ræða við þennan gamla síldarkóng.

Það er ekki hægt að lá mér, þótt ég vilji fara nokkuð ýtarlega út í þetta mál, er þvílík stórmæli eru hér viðhöfð sem af hv. þm. Ísaf., og eitt af því, sem ég benti á, var, að sænskir síldarkaupmenn hefðu þrásinnis lækkað síldarverðið. Það er opinberlega vitað, að á Siglufirði urðu allir smærri saltendur að sætta sig við lækkun, nema Ingvar heitinn Guðjónsson. Urðu saltendur þá t. d. að borga skatta af bókfærðu verði, sem var mun hærra en þeir fengu. Þetta var hin mesta óhæfa, og Svíarnir fylgdust með síldinni í tunnurnar og síðan með tunnunum og hrifsuðu úr vasa saltenda sem mest þeir máttu. Síldarútvegsnefnd reyndi aldrei að bæta úr þessu, nema hvað hún tók fyrir fátækustu saltendurnar og refsaði þeim, er þeir reyndu að sleppa undan þessu oki. Þannig voru aðferðir síldarútvegsnefndar. Ég læt þetta nú nægja í bili og vænti, að mér gefist kostur á að athuga þá dælu, sem hv. þm. Ísaf. lét ganga hér, er ræða hans verður prentuð.