25.03.1947
Neðri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

200. mál, loftferðir

Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Í frv. því, er hér liggur fyrir á þskj. 532, felst að vísu nokkurt nýmæli. En það er ekki höfuðatriði þeirra l., sem hér er verið að breyta. Í þessu frv. er farið fram á, að gilda skuli sömu reglur um hvers konar loftför og flugvélar og um eignarrétt og eignarhöft á skipum, skrásettum. Alllengi hefur verið í l. og að vísu lengur en í siglingarl., sem gilt hafa síðan 1914, að á það skip skyldi réttarlega litið eins og fasteignir. Þegar þetta var tekið í ákvæði siglingarl., þá var það skýrlega tekið fram, að svona skyldi vera með öll skip, sem skrásett væru. Gilda þá og hinar sömu reglur varðandi lán, sem veitt eru með tryggingu í þessum eignum. Eins og hv. þm. er að sjálfsögðu ljóst, þá gilda aðrar tryggingareglur um fasteignaveð en lausafjárveð. Nú er ætlazt til eftir ákvæðum þessa frv., að sú trygging komi einnig til þess að gilda, hvað snertir flugvélar og önnur loftför. Samgmn. hv. d. hefur haft mál þetta til athugunar, eins og frá er greint í nál. á þskj. 561. Hún leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt. N. telur, að eins og nú er komið, þá sé mjög hagkvæmt fyrir alla hlutaðeigendur, að þessar reglur gildi. Því þótt áður fyrr væri miðað út frá afkomu manna í hverju einu, sem mátti kalla búskap, þar sem það átti við, þá má segja nú, að það gildi að vissu leyti eins um loftför yfirleitt, þótt þau séu að mestu notuð til mannflutninga, þar sem samgöngurnar eru lífsnauðsyn og undirstaða atvinnuveganna og lífsafkomu fólksins.

Samkv. því, sem ég hef nú látið getið, er lagt til af hálfu n., að frv. verði samþykkt óbreytt, og þarf ég ekki að hafa um það fleiri orð.